Dekkjaleiga - Skilmálar

S K I L M Á L A R

FYRIR LEIGU Á DEKKJUM OG FELGUM HJÁ N1 EHF.

 

 1.       Gildissvið skilmála.

  • Skilmálar þessir gilda um leigu á dekkjum og felgum („hið leigða“) hjá N1 ehf., kt. 411003-3370, Dalvegi 10-14, 201 Kópavogi (hér eftir nefnt „N1“ eða „leigusali“ í skilmálum þessum).

2.       Aðild, ábyrgð og skilyrði fyrir leigu.

  • Eigandi hins leigða er N1.
  • Leigutaki, sem nafngreindur er í leigusamningi og óskað hefur eftir leigu á hinu leigða, ber ábyrgð á hinu leigða á leigutíma og þar til því hefur verið skilað til leigusala.
  • N1 verður aldrei ábyrgt vegna greiðslu kostnaðar sem orsakast af galla, notkun eða skemmdum á hinu leigða eða viðkomandi ökutæki á leigutímanum, af hvaða orsökum sem það er.
  • Leigutaka er óheimilt að lána eða framleigja hið leigða án skriflegs samþykkis leigusala.

3.       Ástand hins leigða, afhending, notkun o.fl.

  • Hið leigða skal afhendast á umsömdum tíma og vera í því ástandi sem almennt er talið fullnægjandi miðað við umsamin afnot.
  • Leigutaki tekur við hinu leigða í því ástandi sem það er við upphaf leigutíma og lýsir því yfir að hann sætti sig við það að öllu leyti. Leigutaki staðfestir með móttöku á hinu leigða að hann hafi kannað ástand þess og að það sé í lagi.
  • Leigutaki lýsir því yfir með undirritun undir skilmála þessa að honum sé kunnugt um og sætti sig við að hið leigða, þ.e. dekk og felgur, geti verið af annarri stærð en framleiðandi ökutækis kann að hafa mælt fyrir um. Geti hraðamælir ökutækis því sýnt annan hraða við notkun hins leigða en raunverulegur hraði þess tekur til. Skal notkun hins leigða við slíkar aðstæður vera að öllu leyti á ábyrgð og áhættu leigutaka og því N1 óviðkomandi. Þá staðfestir leigutaki að honum sé kunnugt um og sætti sig við að TPMS skynjaraljós verði virkt í ökutæki við notkun hins leigða í þeim tilvikum þegar loftþrýstingsskynjara er ekki að finna í ABS kerfi viðkomandi ökutækis.
  • Leigutaka er skylt að fara í hvívetna með hið leigða á þann hátt sem samrýmist viðteknum venjum um umgengni.
  • Leigutaka er óheimilt að flytja hið leigða úr landi.
  • Einungis er heimilt að nota hið leigða á þjóðvegum landsins eða fólksbílafærum vegum. Er notkun hins leigða óheimil um óbrúaðar ár og aðrar vegleysur.

4.       Ástandi hins leigða að leigutíma loknum – ábyrgð vegna tjóns/skemmda.

  • Verði hið leigða fyrir tjóni á leigutíma skal leigutaki tafarlaust tilkynna um tjónið til leigusala.
  • Að leigutíma loknum skal leigutaki skila hinu leigða í sama ástandi og það var í við upphaf leigutíma að teknu tilliti til eðlilegs slits vegna eðlilegrar notkunar á leigutíma að mati leigusala.
  • Allt tjón sem verður á hinu leigða á leigutíma skal alfarið vera á ábyrgð leigutaka gagnvart leigusala. Skal leigutaki í samráði við leigusala gera ráðstafanir til að bæta úr tjóninu svo fljótt sem verða má. Vanræki leigutaki þessa skyldu sína er leigusala heimilt að láta framkvæma viðgerð á kostnað leigutaka. Skuldbindur leigutaki sig til að greiða að fullu tjón/altjón sem verður á hinu leigða á leigutíma skv. útreikningi N1.
  • Leigutaki ber alla ábyrgð og áhættu á viðkomandi ökutæki við notkun hins leigða.

5.       Samningslok og réttarúrræði vegna vanefndar.

  • Leigusamningur þessi rennur út á fyrirfram umsömdum tíma. Áframhaldandi leiga er ávallt háð samþykki leigusala.
  • Að leigutíma loknum skal leigutaki skila hinu leigða til leigusala. Skulu skil fara fara fram á sömu starfsstöð N1 og hið leigða var afhent við upphaf leigutíma. Fari leigutími fram yfir umsamdan tíma skal leigutaki greiða N1 fyrir þann tíma sem umfram er samkvæmt gildandi gjaldskrá N1 hverju sinni.
  • Skili leigutaki ekki hinu leigða á umsömdum tíma samkvæmt leigusamningi eða óski eftir áframhaldandi leigu er leigusala heimilt á kostnað leigutaka að sækja hið leigða án frekari fyrirvara á hvern þann stað sem það er að finna og taka í sína vörslu.
  • Finnist hið leigða ekki hjá leigutaka skuldbindur leigutaki sig til að greiða N1 verðmæti hins leigða allt eftir útreikningi N1 10 dögum eftir að áskorun þess efnis hefur verið send leigutaka.
  • Leigusala er heimilt að rifta leigusamningi komi til verulegra vanefnda leigutaka. Jafnframt því er leigusala heimilt að rifta leigusamningi verði leigutaki úrskurðaður gjaldþrota, honum veitt með úrskurði héraðsdómara heimild til að leita nauðasamninga eða greiðslustöðvunar, eða aðrar sambærilegar vísbendingar eru um að leigutaki muni líklega ekki geta staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum.
  • Rifti leigusali leigusamningi skal leigutaki bæta leigusala allt það tjón, þ.m.t. útgjöld og/eða tekjutap, sem leiðir af vanefndum hans. Strax eftir að leigutaka hefur verið birt tilkynning um riftun samnings með sannanlegum hætti skal leigutaki afhenda leigusala hið leigða á eigin kostnað. Nú afhendir leigutaki ekki hið leigða þegar í samræmi við framangreint og getur leigusali þá látið sækja hið leigða á kostnað og ábyrgð leigutaka.

6.       Ýmis ákvæði.

  • Um leigusamning og skilmála þessa skal farið samkvæmt íslenskum lögum.
  • Öll deilumál sem upp kunna að koma á milli aðila skulu aðilar reyna af fremsta megni að leysa sín á milli. Rísi mál út af samningi sem gerður er á grundvelli þessara skilmála skal reka það fyrir Héraðsdómi Reykjaness.