Endurskoðunarnefnd

Stjórn N1 hefur skipað endurskoðunarnefnd fyrir félagið í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga. Í henni skulu sitja eigi færri en þrír nefndarmenn og skal meirihluti þeirra vera óháður N1. Nefndin skal skipuð til eins árs í senn á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Meirihluti nefndarmanna skal vera stjórnarmenn N1 og stjórn félagsins skal tilnefna formann. Nefndarmenn skulu hafa þekkingu og reynslu í samræmi við störf nefndarinnar og skal að minnsta kosti einn nefndarmanna hafa staðgóða þekkingu og reynslu á sviði reikningsskila eða endurskoðunar. Starfskjör nefndarmanna skulu ákveðin á aðalfundi.

Nefndinni er ætlað að hafa eftirlit með endurskoðun ársreikninga og mat á störfum endurskoðenda til að tryggja frekara öryggi og vönduð vinnubrögð við endurskoðunina. Samkvæmt reglum um störf nefndarinnar skulu tveir stjórnarmenn valdir í nefndina auk eins utanaðkomandi sérfræðings. Nefndin skal halda a.m.k. fjóra fundi á ári og aukafundi þegar formaður telur þörf á því.

Hlutverk endurskoðunarnefndar er eftirfarandi:

  • Hafa eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila
  • Hafa eftirlit með fyrirkomulagi og virkni innra eftirlits N1, áhættustýringu og annarra eftirlitsaðgerða
  • Hafa eftirlit með endurskoðun ársreiknings og samstæðureiknings N1
  • Setja fram tillögu til stjórnar um val á endurskoðendum eða endurskoðunarfyrirtæki
  • Meta óhæði endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækis og hafa eftirlit með öðrum störfum endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækis

Í nefndinni sitja:

  • Kristín Guðmundsdóttir,
  • Þórarinn V. Þórarinnsson
  • Guðmundur Þór Frímannsson sem er formaður endurskoðunarnefndar.