Stjórnarhættir

Stjórnarháttayfirlýsing N1

Stjórnarhættir N1 eru markaðir af starfsreglum stjórnar, samþykktum félagsins og lögum nr.2/1995 um hlutafélög. Gildandi starfsreglur stjórnar voru samþykktar á stjórnarfundi þann 9. apríl 2013. Reglurnar eru settar samkvæmt ákvæðum í 4. mgr. 70. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 2. mgr. 17. gr. samþykkta félagsins.

Í samþykktum er kveðið á um tilgang félagsins, hlutafé þess, hluthafafundi, stjórn, forstjóra, reikningshald og endurskoðun. Núverandi starfskjarastefna N1 var samþykkt á aðalfundi þann 7. maí 2013. Stefnan nær til starfskjara stjórnarmanna, forstjóra og æðstu stjórnenda félagsins.

Starfsreglur stjórnar, samþykktir félagsins og upplýsingar um starfskjarastefnu eru aðgengilegar á vefsíðu N1 www.n1.is. N1 fylgir leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja, 4. útgáfu 2012, sem gefnar eru út af Viðskiptaráði Íslands, NASDAQ OMX Iceland og Samtökum atvinnulífsins að öllu leyti nema:

Stjórn N1 hefur ekki skipað tilnefninganefnd Stjórnarháttayfirlýsingin inniheldur ekki greiningu á umhverfisþáttum og félagslegum þáttum sem nauðsynlegir eru til að skilja þróun, árangur og stöðu félagsins Stjórnarháttayfirlýsingin inniheldur ekki upplýsingar um helstu þætti í árangursmati stjórnar

Innra eftirlit og áhættustýring

Félagið kappkostar við að halda fullnægjandi innra eftirliti á hinum ýmsu sviðum. Það felst í eftirliti með starfsemi félagsins í því skyni að fyrirbyggja og greina hugsanleg mistök, yfirsjón eða sviksemi.

Hagdeild félagsins sinnir innra eftirliti á útsölustöðvum N1 með reglulegu eftirliti. Valdir starfsmenn sinna eftirliti með öllu sem viðkemur rekstri útsölustöðva N1.

Virk gæða- og umhverfisstjórnunarkerfi N1 eru reglulega tekin út af ytri úttektaraðilum s.s. SGS, Vottun hf. og Exxon Mobil. Stjórn N1 hefur falið Endurskoðunarnefnd það hlutverk að hafa eftirlit með fyrirkomulagi og virkni innra eftirlits félagsins, áhættustýringu og öðrum eftirlitsaðgerðum.

Markmið áhættustýringar er að greina, hafa eftirlit með og lágmarka þá áhættu sem félagið býr við. Unnið er eftir áhættustýringarstefnu sem samþykkt er af stjórn.

Reglugerðir er varða starfsemi N1

Starfsemi N1 lýtur ýmsum opinberum reglugerðum. Hér að neðan má sjá þær reglugerðir sem eiga sérstaklega við þá tegund rekstrar sem N1 stundar en þær varða eldsneyti, eiturefni og hættuleg efni, spilliefni, innflutning og vöruhús.

 • Reglugerð 750/2008: Um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni(„REACH“)
 • Reglugerð 365/2008: Um söfnun gagna um innflutning, geymslu og sölu á eldsneyti
 • Reglugerð 560/2007: Um fljótandi eldsneyti
 • Reglugerð 809/1999: Um olíuúrgang
 • Reglugerð 806/1999: Um spilliefni
 • Reglugerð 35/1994: Um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi
 • Reglugerð 1022/2010: Auglýsing um flutnings-jöfnunargjald á olíuvörum
 • Reglugerð 87/2004: Lög um olíugjald og kílómetragjald o.fl.
 • Reglugerð 984/2000: Um flutning á hættulegum farmi

Úrskurðir og dómar tengdir N1

1. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins 1. júní 2012 (12/2012) (Kaup Framtakssjóðs Íslands slfh. á hlutum í N1).

Með kaupum sínum á 55% hlutafjár í N1 öðlaðist Framtakssjóður Íslands yfirráð yfir félaginu. Vegna þeirra samkeppnislegu vandkvæða sem samruninn hafði í för með sér taldi Samkeppniseftirlitið tilefni til íhlutunar. Lauk málinu með sátt aðila, dags. 29. maí 2012, þar sem samrunaaðilar gengust undir skilyrði sem birt eru í ákvörðunarorðum.

Hér skal athugað að í máli þessu var ekki um að ræða brot á samkeppnislögum, heldur taldi Samkeppniseftirlitið ástæðu til íhlutunar á grundvelli laganna og setti því samrunanum skilyrði, eins og áður segir.

2. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins 14. desember 2012 (33/2012) (Lóðrétt samráð SORPU bs., Metans hf., N1 og Orkuveitu Reykjavíkur um ákvörðun smásöluverðs á metangasi).

Samkeppniseftirlitið hafði til skoðunar ólögmætt samráð SORPU bs., Metans hf., N1 og Orkuveitu Reykjavíkur um ákvörðun smásöluverðs á metangasi á útsölustöðvum N1, áður Olíufélagsins hf. Hafði N1 frumkvæði að því að upplýsa Samkeppniseftirlitið um tilvist samningsins og óskaði eftir niðurfellingu á mögulegum sektum á grundvelli reglna Samkeppniseftirlitsins nr. 890/2005 um atvik sem leiða til niðurfellingar sekta eða ákvarðana um að lækka sektir í málum er varða ólögmætt samráð fyrirtækja. Snéru hin fyrirtækin sér síðan til Samkeppniseftirlitsins og luku málinu með sátt við eftirlitið. N1 uppfyllti skilyrði reglnanna og fékk sekt sína í málinu fellda niður. Hin félögin luku málinu með sátt gagnvart Samkeppniseftirlitinu þar sem þau féllust á að greiða stjórnvaldssektir að samanlagðri fjárhæð 9 millj. kr. og sæta skilyrðum í því skyni að örva samkeppni á mörkuðum tengdri sölu á metangasi.

3. Ákvarðanir Neytendastofu þar sem N1 hefur brotið gegn lögum nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu:

 • a. Ákvörðun nr. 42/2012
 • b. Ákvörðun nr. 22/2012
 • c. Ákvörðun nr. 2/2013
 • d. Ákvörðun nr. 29/2009