ALMENNIR VIÐSKIPTASKILMÁLAR RAFHLEÐSLUÁSKRIFTAR

1. Gildissvið

1.1. Skilmálar þessir gilda fyrir notkun heimila og fyrirtækja á rafhleðslustöðvum í áskrift.
1.2. Áskriftarþjónustan er þjónusta sem samanstendur af aðgangi að rafhleðslustöð fyrir raftengjanlegar bifreiðar, ásamt öllum rekstri og viðhaldi á þeirri rafhleðslustöð.

2. Gjald

2.1. Áskriftargjald er greitt mánaðarlega, nema um annað sé samið. Verð er samkvæmt verðskrá hverju sinni.
2.2. Fyrir leigu á rafhleðslustöð ásamt þjónustu við hana er greitt í samræmi við samning aðila og gildandi gjaldskrá N1 sem birt er á heimasíðu félagsins. Komi til þess að N1 veiti viðskiptavin frekari þjónustu fer um hana eftir samkomulagi eða gjaldskrá N1 eftir atvikum. Skal N1 tilkynna um breytingar í gjaldskrá eins og kostur er. Öll verð á heimasíðu N1 eru birt með fyrirvara um innsláttarvillur, prentvillur og myndvillur.
2.3. Viðskiptavinur ber ábyrgð á því að allar greiðslur séu inntar af hendi eigi síðar en á eindaga. Sé reikningur greiddur eftir gjalddaga skal N1 heimilt að innheimta frá viðskiptavin dráttarvexti frá gjalddaga til greiðsludags skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 auk innheimtukostnaðar.
2.4. N1 er heimilt að loka fyrir leiguáskriftina hafi skuld ekki verið greidd innan 30 daga frá eindaga og fjarlægja allan búnað í eigu félagsins. Ef lokað er vegna vanskila ber N1 enga ábyrgð á hugsanlegri röskun, óþægindum eða tjóni sem viðskiptavinur kann að verða fyrir vegna þessa.
2.5. Athugasemdir viðskiptavinar við reikninga skulu berast eins fljótt og auðið er og eigi síðar en á eindaga eða 10 dögum eftir að reikningurinn hefur verið sendur eða gerður aðgengilegur viðskiptavin. Að öðrum kosti telst reikningurinn samþykktur.

3. Ábyrgð

3.1. N1 ber ekki ábyrgð á tjóni sem kann að verða rakið til sambandsleysis, rofs á fjarskiptum eða annarra truflana sem kunna að verða á rekstri fjarskiptakerfis N1 eða þjónustuaðila, hvort sem slíkt má rekja til ljósleiðarabilana, bilana í netbúnaði eða annarra ástæðna, nema slíkt verði rakið til mistaka af hálfu starfsfólks N1.
3.2. Viðskiptavinur ber ábyrgð á að lagt sé grunnnet, sem samanstendur af öllum nauðsynlegum raflögnum og varnarbúnaði samkvæmt kröfum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, áður en rafhleðslustöð er uppsett. Allt viðhald og viðgerðir á grunnneti og varnarbúnaði er á ábyrgð viðskiptavinar, enda er það eign hans.
3.3. Þegar N1 hefur afhent og sett upp rafhleðslustöð, telst það sem eign N1.
3.4. Viðskiptavinur skal ganga vel um hinn leigða búnað. Skal viðskiptavinur vera ábyrgur fyrir öllu tjóni sem verður á búnaðnum vegna rangrar notkunar, illrar umgengni eða gáleysislegrar háttsemi viðskiptavinar í tengslum við búnaðinn.
3.5. N1 ber enga ábyrgð á útlitslegum lýtum eða skemmdum sem kunna að verða á eignum húsráðenda ef rafhleðslustöð eða lagnir eru fjarlægðar eða skipt út, eftir að rafhleðslustöð er sett upp.
3.6. Viðskiptavinur skal halda N1 skaðlausu af hvers konar tjóni, kröfum, aðgerðum, skaða, ábyrgðum, sektum, refsingum og kostnaði sem N1 kann að verða fyrir vegna eða í tengslum við viðskiptin eða aðgerðir eða aðgerðarleysi viðskiptavinar, hvort sem það stafar af vanrækslu, ásetningi eða gáleysi viðskiptavinar, umboðsaðila hans eða fulltrúa í tengslum við samning aðila eða leiða af broti á samningi aðila.
3.7. N1 ber, undir engum kringumstæðum, ábyrgð gagnvart viðskiptavin á: missi hagnaðar, rekstrartjóni, tapi á áætluðum sparnaði, skerðingu á viðskiptavild, refsikenndum skaðabótum eða annars konar óbeinu eða afleiddu tjóni viðskiptavinar eða einhvers þriðja aðila.
3.8. N1 ber ekki ábyrgð á tjóni sem leiðir af galla eða bilun í hugbúnaði eða rafbúnaði hvort sem hann er eign viðskiptavinar eða N1.
3.9. Ábyrgð N1 á öllu tapi, kröfum eða tjóni sem stafar af eða frá brotum á samningi aðila, takmarkast við þá fjárhæð sem N1 fær greidda frá viðskiptavinum á tólf (12) mánaða tímabili fyrir brotið. Ef takmörkun á tjóni er talin ganga lengra en lög heimila skulu skilmálar þessir gilda að því marki sem lög leyfa.
3.10. Ábyrgð N1 er í öllu falli háð því að viðskiptavinur hafi að öðru leyti efnt skyldur sínar, gætt varúðarskyldu og hagað afgreiðslu viðskiptanna að öllu leyti í samræmi við fyrirmæli laga, reglugerða og eftir atvikum samkvæmt reglum eða skilmálum annarra þjónustuaðila.
3.11. Verði einhver mistök, truflanir eða tafir á þjónustu N1 skal ábyrgð N1 takmarkast við að lagfæra slík mistök, truflanir eða tafir, svo fljótt sem auðið er. Hafi stórfellt gáleysi af hálfu N1 leitt til tjónsins skal N1 bera ábyrgð á því í samræmi við skilmála þessa.
3.12. N1 er heimilt að taka mynd af frágangi eða uppsetningu að framkvæmdavinnu lokinni.

4. Notkun

4.1. Viðskiptavinur er ábyrgur fyrir allri notkun á hinum leigða búnaði. Skal viðskiptavinur aðeins nota búnaðinn til þess sem hann er ætlaður. Ef í ljós kemur að viðskiptavinur misnotar búnaðinn, hvort sem notkunin varðar við lög eða ekki skal N1 heimilt að loka á notkun rafhleðslustöðvarinnar fyrirvaralaust, um stundarsakir eða til frambúðar.
4.2. Skal viðskiptavinur tilkynna N1 um allt tjón sem verður á búnaðnum. Skal einungis starfsfólk N1 eða þeim sem N1 hefur falið að annast um viðgerðir og þjónusta á búnaðnum annast þar um.
4.3. N1 skal heimilt að tengjast búnaðnum eða skoða hann á hefðbundnum dagvinnutíma án sérstakrar tilkynningar til viðskiptavinar nema búnaðurinn sé á læstu svæði. Í slíkum tilvikum skal viðskiptavinur veita N1 aðgang að svæðinu telji félagið þörf á.
4.4. N1 skal tilkynna viðskiptavin um bilun sem N1 uppgötvar eftir því sem kostur er.
4.5. N1 ber ekki ábyrgð á þjónusturofi en skal leitast við að koma þjónustu á eins fljótt og kostur er. Skal viðskiptavin heimilt að fara fram á niðurfellingu leigugjalds fyrir hvern sólarhring sem líður án þess að N1 komi þjónustu á aftur takist ekki að laga þjónustuna innan þriggja sólahringa.
4.6. N1 getur innheimt breytingargjald óski viðskiptavinur eftir því að búnaðurinn sé fluttur, opnaður aftur eftir lokun á grundvelli skilmála þessara eða ræstur á ný eftir að viðskiptavinur hefur gert hlé áskrift sinni. Með flutningi er átt við hvort heldur sem er flutning innan lóðar eða flutning á milli lóða.

5. Uppsögn

5.1. Þriggja (3) mánaða skuldbinding er á leiguáskrift.
5.2. Að þremur (3) mánuðum loknum hefur hvor aðili fyrir sig heimild til að segja upp samningi þessum með eins (1) mánaða fyrirvara og tekur uppsögn gildi næstu mánaðamót á eftir.
5.3. Tilkynna skal um uppsögn skriflega. Telst uppsögn skrifleg ef henni er komið á framfæri með tölvupósti (n1@n1.is / hlada@n1.is).
5.4. Við uppsögn skal viðskiptavinur sjá til þess að búnaðurinn sé fjarlægður og honum skilað til N1. Sjái viðskiptavinur ekki til þess að búnaðurinn sé fjarlægður og honum skilað skal N1 heimilt að fjarlægja búnaðinn eða sjá til þess að það verði gert á kostnað viðskiptavinar.

6. Breytingar og aðrir skilmálar

6.1. N1 áskilur sér rétt til að gera breytingar á skilmálum þessum og eru nýjustu skilmálarnir ávallt aðgengilegir á heimasíðu N1 ásamt því sem N1 skal leitast við að tilkynna viðskiptavinum um breytingar á skilmálunum.
6.2. Almennir viðskiptaskilmálar N1 eru þessum skilmálum til fyllingar.
6.3. N1 korthafar vinna sér ekki inn N1 punkta vegna rafhleðsluáskriftar.

7. Force Majeure

7.1. Komi til styrjaldar, náttúruhamfara, verkfalla, farsótta eða annars sambærilegs svo N1 getur ekki fullnægt skyldum sínum gagnvar viðskiptavin þá skapar það ekki N1 skaðabótarskyldu.

8. Framsal

8.1. N1 skal heimilt að fela öðru félagi í sinni eigu eða innan sömu fyrirtækjasamstæðu og N1 tilheyrir framkvæmd samnings við viðskiptavin enda geti það fullnægt þeim skyldum sem seljandi tekst á hendur með samningnum með sama hætti.

9. Önnur ákvæði

9.1. Komi upp ágreiningur út af skilmálum þessum skulu aðilar leitast við að leysa hann í sátt. Takist það ekki skal mál rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
9.2. Aðrir skilmálar N1 svo sem um raforkuviðskipti sem í gildi eru gilda samhliða skilmálum þessum.