Viðskiptaskilmálar

Viðskiptaskilmálar N1

Almennt

Þessir skilmálar gilda um sölu á vöru og þjónustu N1. Skilmálarnir, sem staðfestir eru með staðfestingu á kaupum, eru grunnurinn að viðskiptunum. Eru skilmálarnir og aðrar upplýsingar einungis fáanlegar á íslensku.

Ennfremur teljast viðskiptaskilmálar þessir samningur um viðskipti með raforku milli sölufyrirtækis og almenns notanda samkvæmt  7. gr. reglugerðar nr. 1150/2019. Þegar viðskiptavinur gerir raforkusölusamning við N1 um kaup á raforku, hvort sem slíkur samningur er gerður skriflega, munnlega eða með rafrænum hætti, þá samþykkir viðskiptavinur að viðskiptaskilmálar þessir gildi um samninginn.

Til fyllingar skilmálum þessum eru lög sem um starfsemi N1 gilda. Gilda lögin framar skilmálunum í neytendakaupum sé svo fyrir mælt í viðkomandi lögum. Þar er helst um að ræða eftirfarandi lög, auk almennra reglna kauparéttar:

  • Um neytendakaup er fjallað um í lögum um neytendakaup nr. 48/2003, lögum um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu ne. 30/2002, lögræðislögum nr. 7/1997 og lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 90/2018.
  • Um sölu N1 á raforku gilda raforkulög nr. 65/2003 með síðari breytingum  og reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar nr. 1150/2019. Raforkusala er undanþegin ákvæðum laga um neytendakaup nr. 48/2003 og laga um lausafjárkaup nr. 50/2000. Það athugast að viðskiptaskilmálar þessir taka til sölu á raforku, en ekki flutnings og dreifingar hennar af hálfu annarra.

Þá gilda jafnframt frekari skilmálar í einstökum tilvikum. Nú eru í gildi eftirfarandi skilmálar í viðskiptum N1:

  • Um viðskipti í vefverslun N1 gilda skilmálar netverslunarinnar
  • Um N1 kortið gilda skilmálar kortsins
  • Um notkun á N1 appinu gilda skilmálar appsins
  • Um heildsöluviðskipti á eldsneyti

Í öllum tilvikum eru viðskiptaskilmálar þessir til fyllingar framangreindum skilmálum. Sérstakir skilmálar og sérstakir samningar gilda framar þessum almennum skilmálum.

Skilmálar sem varða viðskipti á sölustöðvum N1, pöntunarviðskipti og viðskipti á netinu

  1. Gæði og afhending

1.1.    Um gæði eldsneytis skal farið eftir þeim stöðlum sem í gildi eru hverju sinni varðandi þær eldsneytistegundir sem N1 selur og skulu gæði þeirra vera í samræmi við það sem búast má við af sambærilegri olíu.

1.2.    Skulu áhættuskipti jafnan fara fram þegar eldsneyti fer úr vörslum seljanda til kaupanda. Semja má sérstaklega um afhendingu á eldsneyti. 

  1. Verð og viðskiptakjör

2.1.    N1 veitir almennt afslætti frá svokölluðu fullu þjónustuverði í viðskiptum sínum. Með því er átt við verð án afslátta sem birt er á heimasíðu N1 sem „listaverð“. Skal N1 heimilt að breyta þessu viðmiði, undanþiggja tilteknar stöðvar afsláttum eða gera aðrar breytingar á verði eða afsláttarkerfi félagsins. Leiði slík breyting til þess að kjör viðskiptavinar versni skal honum heimilt að segja upp samning sínum við N1 náist ekki samkomulag um viðeigandi breytingar á samningnum sem gera viðskiptavin eins settan.

2.2.    N1 kann að breyta viðskiptakjörum sínum, afsláttarflokkum, afsláttarkerfum, verðfyrirkomulagi eða vildarkjörum viðskiptavina. Skal engin slík breyting teljast viðbót við þá afslætti eða viðskiptakjör sem samið hefur verið um við viðskiptavin. Skal viðskiptavin hins vegar heimilt að njóta slíkra kjara standi þau sambærilegum viðskiptavinum til boða.

  1. Netverslun og pöntunarviðskipti

3.1.    Öll verð á heimasíðu N1 eru birt með fyrirvara um innsláttarvillur, prentvillur og myndvillur.

3.2.    N1 felur flutningsaðila að senda vörur sem pantaðar eru á netinu. Ber N1 ekki ábyrgð á tjóni sem verður í flutningi.

3.3.    Í gildi eru sérstakir skilmálar um viðskipti í vefverslun N1 og koma viðskiptaskilmálar þessir þeim til fyllingar.

  1. Yfirlit og reikningar

4.1.    Fyrir viðskiptavini sem ekki eru í staðgreiðsluviðskiptum eru yfirlit og reikningar sendir út einu sinni í mánuði nema samið sé um annað og koma upplýsingarnar þar sundurliðaðar á vöruflokk. Skal N1 heimilt að gefa reikninga einungis út með rafrænum hætti. Þar má sjá hvar afgreiðsla átti sér stað. Sé ekki samið sérstaklega um greiðslufrest skal gjalddagi vera tveimur vikum eftir útgáfu reiknings.

  1. Skilmálar sem varða viðskiptareikning hjá N1

5.1.    Með því að sækja um aðild og samþykkja skilmála N1 viðskiptareiknings heimilar umsækjandi N1 að nota allar skráðar upplýsingar, þ.m.t. tölvupóstfang, símanúmer og almennar upplýsingar úr þjóðskrá, til að unnt sé að veita umbeðna þjónustu. Umsækjandi getur einnig veitt N1 samþykki fyrir að vinna með upplýsingar um kaup hans á vörum og þjónustu N1 til markaðssetningar og almannatengsla fyrir N1. Umsækjandi getur afturkallað samþykki sitt með því að senda póst á netfangið: n1@n1.is. Nánari upplýsingar um meðferð persónuupplýsinga er að finna í persónuverndarstefnu N1. Upplýsingar um korthafa eru varðveittar meðan viðkomandi er handhafi N1 kortsins og viðskiptahagsmunir N1 krefjast þess en þó aldrei lengur en lög og reglur mæla fyrir um. Allir vinnsluaðilar N1 og aðilar sem N1 velur til samstarfs hafa undirritað viðeigandi trúnaðaryfirlýsingu og vinnslusamning í samræmi við ákvæði persónuverndarlaga.

 

5.2.    Áður en væntanlegur viðskiptavinur staðfestir umsókn sína ber honum að kynna sér vandlega skilmála þessa. Með samþykki umsóknar kemst á viðskiptasamband þar sem umsækjanda ber að fylgja í hvívetna skilmálum þessum, svo fremi sem N1 samþykkir umsókn viðskiptavinar.

5.3.    N1 er heimilt að leita allra upplýsinga sem fyrirtækið telur nauðsynlegar til að afgreiða umsókn viðskiptamanns um N1 kort eða N1 lykil, svo sem upplýsingar frá Creditinfo og frá viðskiptabönkum. Áður en reikningsviðskipti eru stofnuð, eða hvenær sem N1 fer fram á slíkt, skal umsækjandi leggja fram þær tryggingar er N1 metur fullnægjandi fyrir skilvísum greiðslum úttekta.

5.4.    Viðskiptavinur getur nálgast færsluyfirlit og reikninga á www.mitt.n1.is auk þess sem hann getur óskað eftir að fá slíkt sent með því að hafa samband við þjónustuver. Viðskiptavinur í reikningsviðskiptum skuldbindur sig til að greiða viðskiptaskuld sína eigi síðar en á eindaga.

5.5.    Reikningstímabil er einn almanaksmánuður. Gjalddagi er síðasti dagur úttektarmánaðar og eindagi eigi síðar en 30 dögum eftir lok tímabils. Ef greiðsla dregst bætast dráttarvextir við reikningsupphæðina frá gjalddaga. Viðskipti viðskiptareiknings eru bundin við ákveðnar hámarksfjárhæðir á mánuði. Ákvörðun um hámarksfjárhæð úttektar viðskiptamanns skal tekin af N1 í samráði við viðskiptamann.

5.6.    N1 kort eða lykill sem notaður er til að taka út af viðskiptareikningi er í eigu N1 og getur félagið afturkallað það og lokað viðskiptareikningi vegna vanskila eða misnotkunar án fyrirvara á hvaða tímapunkti sem er. Viðskiptavinur er ábyrgur fyrir öllum úttektum, óháð því hver notar kortið og skuldbindur sig til að greiða úttektir eins og þær birtast á sölunótum sem staðfestar hafa verið við kaup.

5.7.  N1 áskilur sér rétt til að senda rafræna reikninga og rafræn innheimtuskjöl, m.a. en ekki tæmandi, innheimtuviðvörun á netfang viðskiptavina, og/eða sem rafræn skjöl í banka. 

5.8.  Ef til vanskila kemur er áskilinn réttur til skráningar á vanskilaskrá 40 dögum eftir eindaga.

Viðskiptaskilmálar sem varða raforkusölu sérstaklega

  1. Notkun, verð og greiðsluskilmálar

6.1.    Með gerð raforkusölusamnings við N1 þá samþykkir viðskiptavinur að veita sölufyrirtæki umboð til að afla upplýsinga um raforkunotkun viðskiptavinar frá viðkomandi dreifikerfi. Umboðið nær meðal annars til upplýsinga um númer veitu og mælis, dreifisvæði, heimilisfang, núverandi söluaðila raforku að hluta til, dreifiveitutaxta, áætlaða ársnotkun, meðalnotkun, síðasta álestur, mæliaðferð, stöðu mælis, margföldunarstuðul og stafafjölda. Ef um tímamældar veitur er að ræða þá eru tímagildin afhent allt að 24 mánuði aftur í tímann. Raforkunotkun viðskiptavinar, við gerð raforkusölusamnings, er notuð til að ákvarða áætlun um orkunotkun. Sé um að ræða nýjan viðskiptavin sem ekki hefur áður keypt raforku er heimilt að áætla notkun með hliðsjón af sambærilegri notkun. Ef ekki er um annað samið þá fer verð N1 eftir gildandi verðskrá N1 hverju sinni (kr./kWst.). Verðskrána er að finna á heimasíðu fyrirtækisins en auk þessa birtist verðið á reikningum frá N1. Reikningar vegna raforkunotkunar eru sendir mánaðarlega.

6.2.    Gjalddagi á reikningum fyrirtækja er 10. hvers mánaðar með eindaga 20. hvers mánaðar eða næsta virka dag þar á eftir.

6.3.    Gjalddagi á reikningum einstaklinga er 20. hvers mánaðar með eindaga fyrsta virka dag næsta mánaðar á eftir.

6.4.    N1 áskilur sér rétt til þess að innheimta greiðslugjald vegna reikninga sem sendir eru til viðskiptavina. Greiðslugjaldið skal birt í verðskrá N1 og aðgreint undir tilkynningar- og greiðslugjaldslið á kröfu í netbanka. Ef viðskiptavinur er að skipta um söluaðila raforku þá tekur samningurinn gildi í samræmi við 9. kafla Netmála Landsnets hf., sbr. B6 skilmála um samskipti milli aðila á raforkumarkaði með grunn-, mæli- og uppgjörsgögn.

  1. Uppsögn samnings

7.1.    Raforkusölusamningar N1 og viðskiptavina eru ótímabundnir nema um annað sé samið. Báðum aðilum samningsins er heimilt að segja upp raforkusölusamningnum með eins mánaða fyrirvara, nema um annað sé sérstaklega samið, og tekur uppsögnin gildi 1. næsta mánaðar frá tilkynningu þar um.

  1. Riftun

8.1.    Eftir gjalddaga er send skrifleg áskorun til viðskiptavinar um að greiða raforkuskuld ásamt viðvörun um að við greiðslufall sé heimilt að stöðva orkuafhendingu vegna vanskila sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 1150/2019. Heimild er í 43. gr. raforkulaga nr. 65/2003, sbr. 10. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför nr. 90/1989, til aðfarar án undangengis dóms eða sáttar.

8.2.    N1 er heimilt að rifta raforkusölusamningi við viðskiptavin verði vanskil þrátt fyrir greiðsluáskorun, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 1150/2019.

  1. Ábyrgðarreglur

9.1.    Skaðabótaréttur viðskiptavinar skal ætíð takmarkast við beint tjón. N1 ber ekki ábyrgð á tjóni sem rekja má til óviðráðanlegra atvika svo sem vegna orkuskorts, styrjalda og náttúruhamfara, þ.á m. óveðurstjóns. N1 ber ekki ábyrgð á þeim skyldum sem hvíla á flutningsfyrirtæki orku og dreifiveitu samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003, til dæmis ef grípa þarf til skömmtunar á raforku til notenda ef framboð er ekki fullnægjandi. Tengisamningur við dreifiveitu er ekki hluti samnings viðskiptavinar og N1. Dreifiveita ber m.a. ábyrgð á uppsetningu, rekstri og viðhaldi mælibúnaðar sem og söfnun, leiðréttingu, staðfestingu og dreifingu mæligagna. Viðskiptavini ber að virða skilmála dreifiveitna og Landsnets hf., sbr. og gildandi Netmál Landsnets hf. Ef erfiðleikar eru við orkuöflun er N1 heimilt að skerða afhendingu raforku, án þess að til bótaskyldu stofnist. Viðskiptavinum skal tilkynnt um fyrirhugaða skerðingu ef til kemur.

  1. Nýr notandi

10.1   N1 áskilur sér rétt til þess að synja nýjum aðila um afhendingu á raforku, svo sem ef raforkunotkun hans er þess eðlis að fyrirtækinu er ekki mögulegt að afhenda umbeðið magn af orku eða vegna vangoldinna reikninga eða ógjaldfærni.

10.2   N1 er heimilt að leita allra upplýsinga sem fyrirtækið telur nauðsynlegar til að afgreiða umsókn viðskiptamanns um raforkusölu svo sem upplýsingar frá Creditinfo.

Almenn ákvæði

  1. Almennt

11.1   Áhættuskipti vegna pöntunarviðskipta fara fram þegar vörurnar fara úr vöruhúsi N1. Viðskiptavinur skal tilkynna N1 um ætlaða galla á vörum eins fljótt og auðið er. Ella hefur viðskiptavinur fyrirgert rétti sínum til þess að bera fyrir sig gallann standi ákvæði laga ekki til annars.

11.2   Ef kort eða lykill tapast ber eiganda þess að tilkynna það tafarlaust til N1. Frá því tilkynningin berst N1 er viðskiptavinur ekki ábyrgur vegna misnotkunar N1 korts eða N1 lykils.

11.3   Áskilur N1 sér rétt til þess að staðfesta ekki pöntun viðskiptavinar eða afturkalla staðfestingu ef ein vara eða fleiri eru uppseldar, ef ástæða er til þess að ætla að villur séu í pöntun og ef rökstuddur grunur er um misnotkun á vefversluninni. Undir þeim kringumstæðum er kaupanda send tilkynning um að ekki hafi reynst unnt að staðfesta pöntunina eða um afturköllun hennar ásamt ábendingum um önnur úrræði, s.s. breytingu á pöntun. N1 hefur gert samstarfssamninga við aðra aðila um að veita korthöfum ákveðna þjónustu. N1 mun leitast við að sjá til þess að slík þjónusta verði í boði en ábyrgist það ekki. N1 er ekki ábyrgt fyrir skaða sem hlýst af vanefndum samstarfsaðila.

  1. Ábyrgð vegna tjóns

12.1   Viðskiptavinur skal halda N1 skaðlausu af hvers konar tjóni, kröfum, aðgerðum, skaða, ábyrgðum, sektum, refsingum og kostnaði sem N1 kann að verða fyrir vegna eða í tengslum við viðskiptin eða aðgerðir eða aðgerðarleysi viðskiptavinar, hvort sem það stafar af vanrækslu, ásetningi eða gáleysi viðskiptavinar, umboðsaðila hans eða fulltrúa í tengslum við samning aðila eða leiða af broti á samningi aðila. Þessi skaðleysisyfirlýsing skal ekki með neinum hætti takmarka þau lögbundnu réttindi sem N1 kann að njóta vegna mögulegra samningsbrota.

12.2   N1 ber, undir engum kringumstæðum, ábyrgð gagnvart viðskiptavin á: missi hagnaðar, rekstrartjóni, tapi á áætluðum sparnaði, skerðingu á viðskiptavild, refsikenndum skaðabótum eða annars konar óbeinu eða afleiddu tjóni viðskiptavinar eða einhvers þriðja aðila.

12.3   N1 ber ekki ábyrgð á tjóni sem leiðir af galla eða bilun í hugbúnaði eða vélbúnaði hvort sem hann er eign viðskiptavinar eða N1.

12.4   Ábyrgð N1 á öllu tapi, kröfum eða tjóni sem stafar af eða frá brotum á samningi aðila, takmarkast við þá fjárhæð sem N1 fær greidda frá viðskiptavinum á tólf (12) mánaða tímabili fyrir brotið. Ef takmörkun á tjóni er talin ganga lengra en lög heimila skulu skilmálar þessir gilda að því marki sem lög leyfa.

12.5   Ábyrgð N1 er í öllu falli háð því að viðskiptavinur hafi að öðru leyti efnt skyldur sínar, gætt varúðarskyldu og hagað afgreiðslu viðskiptanna að öllu leyti í samræmi við fyrirmæli laga, reglugerða og eftir atvikum samkvæmt reglum eða skilmálum annarra þjónustuaðila.

12.6   Verði einhver mistök, truflanir eða tafir á þjónustu N1 skal ábyrgð N1 takmarkast við að lagfæra slík mistök, truflanir eða tafir, svo fljótt sem auðið er. Hafi stórfellt gáleysi af hálfu N1 leitt til tjónsins skal N1 bera ábyrgð á því í samræmi við skilmála þessa.

  1. Vanefnd

13.1   Nú greiðir viðskiptavinunr ekki fyrir úttektir á gjalddaga og er N1 þá heimilt að hætta að þjónusta hann þá þegar. Hætti N1 að veita þjónustu skal honum ekki skylt að hefja afgreiðslu á ný nema viðskiptavinur greiði útistandandi skuld eða leggi fram tryggingu fyrir greiðslunni sem N1 metur fullnægjandi. Skal viðskiptavinur greiða hæstu heimilu dráttarvexti frá gjalddaga til greiðsludags komi til greiðslufalls.

13.2   Skal N1 heimilt að segja upp öllum viðskiptum við viðskiptavin komi upp veruleg vanefnd. Sé ekki bætt úr greiðslufalli telst það alltaf veruleg vanefnd.

13.3   Komi til gjaldþrots, rekstrarstöðvunar, greiðslustöðvunar eða ef hafnar eru nauðasamningsumleitanir skal N1 heimilt að hætta að þjónusta viðskiptavin og gera honum þá þegar reikning fyrir öllum óreikningsfærðum vöruúttektum.

  1. Force Majeure

14.1   Komi til styrjaldar, náttúruhamfara, verkfalla eða farist olíuskip á vegum N1 svo að N1 geti ekki staðið við afhendingu eldsneytis til viðskiptavinar, þá skapar það ekki N1 skaðabótaskyldu gagnvart viðskiptavini. Komi til atvika sem grein þessi tekur til, þá skal N1 þó gera allt sem í þess valdi stendur til að útvega viðskiptavini eldsneyti eins fljótt og kostur er.

  1. Trúnaður

15.1   Aðilar skulu gæta trúnaðar um viðskipti og ekki upplýsa um þau nema það leiði af lagafyrirmælum, sé nauðsynlegt fyrir framkvæmd samningsins eða leiði að öðru leyti af eðli máls.

  1. Framsal

16.1   N1 skal heimilt að fela öðru félagi í sinni eigu eða innan sömu fyrirtækjasamstæðu og N1 tilheyrir framkvæmd samnings við viðskiptavin enda geti það fullnægt þeim skyldum sem seljandi tekst á hendur með samningnum með sama hætti. Skal viðskiptavin heimilt að framselja samninginn til annars félags innan sömu félagasamstæðu að fenginni heimild seljanda.

  1. Breytingar á skilmálum

17.1   N1 áskilur sér rétt til þess að breyta skilmálum þessum eftir því sem efni standa til. Mun seljandi tilkynna kaupendum um breytingar og taka þær gildi við tilkynninguna nema annað komi fram í tilkynningunni.

17.2   Áskilur N1 sér sérstaklega rétt til þess að gera, hvenær sem er og án fyrirvara, eftirtaldar breytingar á viðskiptakjörum: i) breyta verðum eða þjónustugjöldum, þ.m.t. að hefja gjaldtöku fyrir þjónustu sem verið hefur gjaldfrjáls ; ii) breyta verðum á einstökum afgreiðslustöðvum iii) breyta uppbyggingu afsláttarkerfis

17.3   Afhending nýrra viðskiptaskilmála í almennum pósti og/eða birting á heimasíðu N1 ehf. , www.n1.is, telst nægileg tilkynning samkvæmt framansögðu. N1 skal birta gildandi skilmála sína á heimasíðu félagsins og leitast við að upplýsa um allar breytingar á þeim.

  1. Samkomulag um viðskipti

18.1   Sé gert sérstakt samkomulag um viðskipti skal það gilda framar skilmálum þessum.

  1. Lögsaga

19.1   Um skilmála þessa gilda íslensk lög. Komi upp ágreiningur á milli aðila sem ekki verður jafnaður þá skal heimilt að bera hann undir Héraðsdóm Reykjavíkur.

  1. Innheimta, dráttarvextir og stöðvun orkuafhendingar

20.1   Verði reikningur ekki greiddur á gjalddaga reiknast af dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá gjalddaga og til greiðsludags. Auk dráttarvaxta getur fallið til innheimtukostnaður í samræmi við lög og reglur um innheimtu fjárkrafa.

20.2 N1 áskilur sér rétt til að senda rafræna reikninga og rafræn innheimtuskjöl, m.a. en ekki tæmandi, innheimtuviðvörun á netfang viðskiptavina, og/eða sem rafræn skjöl í banka. 

20.3  Ef til vanskila kemur er áskilinn réttur til skráningar á vanskilaskrá 40 dögum eftir eindaga.