Lífrænn dísill, eða vetnismeðhöndluð lífræn olía, er endurnýjanleg dísilolía unnin úr lífrænum úrgangsefnum, s.s. notaðri djúpsteikningarolíu, úrgangsfitu, jurtaolíum o.s.frv. Þessum lífrænu olíum er safnað saman og þær unnar í sérútbúnum hreinsistöðvum. Úr verður mjög hrein dísilolía. Lífrænn dísill hefur sömu efnafræðilegu eiginleika og jarðefnaeldsneyti en er léttari. Að auki inniheldur lífrænn dísill færri aukaefni, s.s. brennistein, en hefðbundin jarðefnadísilolía.
Kolefnisspor hans er allt að 90% minna en jarðefnaeldsneytis.
Lífrænn dísill er ekki það sama og bíódísill; enga fitusýrumetýlestera (FAME) er að finna í lífrænum dísil og hefur hann því einstaklega gott kuldaþol, oft betra en hefðbundinn jarðefnadísill.
Hægt er að nota lífrænan dísil á allar hefðbundnar dísilvélar þar sem hann brennur á sama hátt. Mikilvægt er þó að tryggja að framleiðandi vélarinnar hafi heimilað notkun lífræns dísils. Hér má finna lista frá framleiðanda eldsneytisins, Neste, yfir þá sem hafa heimilað notkun. Innan í eldsneytisloki eða í handbók bifreiðar á að vera listi yfir það eldsneyti sem heimilað er til notkunar fyrir tiltekna bifreið. Merking fyrir lífrænan dísil er XTL, eða HVO100, og fjallar staðallinn EN 15940:2016 um gæði hans.