Hluthafafundur N1 hf.

29. júlí 2014

Hluthafafundur N1 hf.

Stjórn N1 hf. boðar til hluthafafundar miðvikudaginn 20. ágúst 2014 klukkan 16:00 á aðalskrifstofu félagsins að Dalvegi 10-14, Kópavogi.

Dagskrá fundarins:
1. Breyting á samþykktum - varamenn
2. Kosning eins aðalstjórnarmanns í stjórn félagsins og tveggja varamanna
3. Önnur mál löglega upp borin

Nánar um dagskrá fundarins:
Rétt áður en aðalfundur N1 hf. hófst fimmtudaginn 27. mars 2014 kl. 16:00 síðdegis dró einn frambjóðenda til aðalstjórnar til baka framboð sitt. Sjálfkjörið var til stjórnar  og varastjórnar að öðru leyti. Þar sem allir frestir um framboð til stjórnar voru liðnir þegar afturköllun framboðsins barst var ekki hægt að bregðast við hinum breyttu aðstæðum á þeirri stundu. Stjórn N1 hf. hefur nú ákveðið að boða til hluthafafundar þar sem kjör eins stjórnarmanns í aðalstjórn verður á dagskrá til að tryggja að aðalstjórn verði fullskipuð fram að næsta aðalfundi félagsins.

Á sama tíma leggur stjórn N1 til þá breytingu á samþykktum félagsins að fellt verði á brott ákvæði um kjör tveggja varastjórnarmanna skv. 1. málslið 17. gr. gildandi samþykkta félagsins. Frá síðasta aðalfundi hafa báðir kjörnir varastjórnarmenn sagt af sér. Í stað þess að leggja til kjör nýrra varamanna í stjórn leggur stjórnin til að ákvæðið um varamenn verði fellt niður. Tillagan um að fella niður ákvæði í samþykktum um varamenn tekur ekki gildi fyrr en í fyrsta lagi við samþykkt hennar, þannig að gera þarf ráð fyrir dagskrárliðnum framboð til varastjórnar með fyrirvara um samþykkt hennar, en í því tilviki falla framboð til varastjórnar niður.  

Aðrar upplýsingar:
Öll skjöl og tillögur sem lögð verða fyrir hluthafafundinn verður að finna á vefsíðu félagsins www.n1.is/fjarfestatengsl. Hluthöfum stendur einnig til boða að nálgast skjölin í höfuðstöðvum félagsins að Dalvegi 10-14, Kópavogi, virka daga milli klukkan 9:00-16:00.

Endanleg dagskrá og tillögur verða birtar viku fyrir fundinn. Samkvæmt 63. gr. a. hlutafélagalaga nr. 2/1995 ber að tilkynna um framboð til stjórnar skriflega með minnst fimm sólarhringa fyrirvara fyrir hluthafafundinn, eða fyrir kl. 16:00 föstudaginn 15. ágúst 2014. Framboðum skal skila á skrifstofu N1 hf., Dalvegi 10-14, Kópavogi eða á netfangið hluthafar@n1.is. Upplýsingar um frambjóðendur til stjórnar verða birtar eigi síðar en tveimur dögum fyrir aðalfund.

Aðgöngumiðar, atkvæðaseðlar og önnur fundargögn verða afhent frá klukkan 15:30 þann dag sem hluthafafundurinn verður haldinn.

Stjórn N1 hf.