Sums staðar kemst fólk ekki af án nagla
Þegar kemur að dekkjakaupum er kannski ekki skrítið að valkvíði gerir vart við sig. Framboðið hefur aldrei verið betra og framleiðendur keppast við að bjóða upp á ný og betri dekk sem eiga að endast lengur, ná betra gripi og jafnvel draga úr eldsneytisnotkun. Svo þarf að velja á milli negldra eða ónegldra. Er ódýrari og minna þekktum framleiðendum treystandi eða er eina vitið að kaupa frá rótgrónum fyrirtækjunum? Borgar sig að vera á heilsársdekkjum eða eiga umgang af vetrar- og sumardekkjum og heimsækja dekkjaverkstæðið tvisvar á ári?
Dagur Benónýsson, deildarstjóri hjólbarðadeildar N1, segir ekki að því hlaupið að finna einfalt svar við þessum spurningum. „Val á dekkjum verður að ráðast af því hvernig fólk notar bílinn og þarfinar ekki þær sömu hjá þeim sem t.d. búa í dreifbýli og þeim sem eru lítið á ferð utan höfuðborgarsvæðisins yfir vetratímann. Margir geta komist af án nagladekkja í þéttbýli, en þeir sem aka úti á landi yfir vetrartímann velja líklega í 9 af hverjum 10 skiptum að kaupa nagladekk.“
Minnkandi naglviskubit
Þegar hann er spurður um verð og gæði segir Dagur að í dekkjakaupum sé fólk alla jafna að fá það sem það borgar fyrir. „Það einkennir þessi betri evrópsku merki eins og Michelin að dekkin eru hönnuð til að lágmarka eldsneytisnotkun og þau veita hámarks grip allan líftímann,“ segir hann og bendir á að mikil vöruþróun og umfangsmiklar tilraunir með mynstur og efni liggi að baki hærri verðmiða vönduðustu bíldekkjanna. „Þannig hafa þær framfarir orðið í nagladekkjum að búið er að fjölga nöglunum en gera þá léttari svo þeir slíta malbikinu síður án þess að gripi sé fórnað.“
Dagur þekkir best dekkjaframboðið hjá Michelin en þar kom nýlega á markað dekkið X-Ice North 4 sem er merkilegt fyrir margra hluta sakir. „Með því dekki fæst styttri hemlunarvegalengd en með eldri gerðum, betra grip, minni vegmótstaða og almennt betri aksturseiginleikar.“
Það eru góðar fréttir að meginþorri bíleigenda hugsar í dag mjög vel um dekkin á bílunum sínum. Heyrir til undantekninga að slitin og léleg dekk sjáist undir íslenskum bílum og eru flestir meðvitaðir um mikilvægi þess að hirða dekkin vel, hreinsa þau og gæta að loftþrýstingnum. „ Í dag vita allir hve mikilvægt öryggisatriði það er að hafa dekkin í lagi, að grip og gæði eru sett í fyrsta sæti og ekki lengur reynt að rembast við að láta dekkin endast sem lengst.“
Hægt að stytta biðina
Samkvæmt reglugerð er nagladekkjatímabilið frá 1. nóvember til 14 apríl, en það er ennþá ríkt í landanum að fresta dekkjaskiptum þar til að skyndilega frystir og myndast þá langa biðraðir við dekkjaverkstæðin. Dagur segir það spara tíma og umstang að fara tímanlega yfir á vetrardekkin, og hægt að flýta enn meira fyrir með því að hafa vetrardekkin á sér felgum og geyma á dekkjahóteli. „Það styttir afgreiðslutímann til muna ef vetrar- og sumardekkin eru á sér felgum. Ef dekkin eru geymd á dekkjahóteli okkar þá pantar viðskiptavinurinn sér tíma á verkstæði, og bíða dekkin klár þegar hann kemur. Er þá búið að yfirfara dekkin og jafnvægisstilla, sumardekkin tekin af með sumarfelgunum og vetrar-umgangurinn festur á í hvelli.“
Þegar kemur að daglegri umhirðu segir Dagur að það þurfi einkum að fylgjast með því að loftþrýstingurinn sé í lagi. Of lítill eða of mikill þrýstingur geti aukið slit og eldsnetisnotkun, auk þess að draga úr gripi. „Tjara og önnur óhreinindi safnast upp í mynstri dekkjanna á veturna og er upplagt að sprauta þau með tjöruhreinsi endrum og sinnum, leyfa efninu að vinna á óhreinindunum og aka svo af stað, og helst þá gripið gott.“