Uppgjör N1 hf. á 3. ársfjórðungi 2013
Rekstrartekjur 45.557 m.kr. fyrstu níu mánuði ársins
- Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir 1.727 m.kr. eftir fyrstu 9 mánuði ársins og áætlaður um 2.200 -2.300 m.kr. á árinu 2013
- Heildarhagnaður tímabilsins 794 m.kr.
- Eiginfjárhlutfall 51,8%
- Hreinar vaxtaberandi skuldir 485 m.kr.
- Stefnt að skráningu N1 í kauphöll fyrir árslok 2013
Rekstur á þriðja ársfjórðungi og fyrstu níu mánuði ársins 2013
Rekstrartekjur N1 hf. á þriðja ársfjórðungi 2013 voru 17.833 m.kr. samanborið við 18.021 m.kr. á sama tímabili í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 1.161 m.kr. samanborið við 1.055 m.kr. á sama tímabili 2012. Heildarhagnaður þriðja ársfjórðungs nam 690 m.kr. samanborið við 473 m.kr. í fyrra.
Rekstrartekjur N1 hf. á fyrstu níu mánuðum ársins 2013 voru 45.557 m.kr. samanborið við 46.748 m.kr. á sama tímabili í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 1.727 m.kr. samanborið við 2.321 m.kr. á sama tímabili 2012. Heildarhagnaður tímabilsins var 794 m.kr. en á sama tímabili árið áður var hann 1.095 m.kr.
Á fyrstu níu mánuðum ársins féll til kostnaður vegna undirbúnings skráningar félagsins á markað og vegna sölu á Bílanausti að fjárhæð 117 m.kr.
Áætlað er að á árinu 2013 verði rekstrarhagnaður félagsins fyrir afskriftir um 2.200 – 2.300 m.kr. fyrir kostnað við ráðgjöf vegna sölu Bílanausts og fyrirhugaðrar kauphallarskráningar félagsins.
Framtíðar markmið félagsins er að hlutfallið milli rekstrarhagnaðar fyrir afskriftir og framlegðar af vörusölu, eins og þessir liðir koma fram í uppgjörum félagsins, verði á bilinu 27-30%. Félagið hefur jafnframt mótað stefnu varðandi fjármagnsskipan félagsins og arðgreiðslur sem gerir ráð fyrir að a.m.k. 50% af hagnaði ársins verði greidd til hluthafa og að eiginfjárhlutfall félagsins verði yfir 40%.
Félagið stefnir á að hlutabréf N1 verði tekin til viðskipta í Kauphöll Íslands fyrir lok ársins. Stefnt er að því að 25-28% hlutafjár N1 verði boðin til sölu í útboði, sem haldið verður í aðdraganda skráningar. Fyrirhugað er að útboðið fari fram í tveimur hlutum, A hluta, þar sem 10% af útgefnu hlutafé félagsins verður boðið til sölu á föstu verðbili, og B hluta, þar sem 15-18% hlutafjár verður boðið til sölu með uppboðsfyrirkomulagi. Tilgreint verður lágmarksverð í B hluta, en ekkert hámarksverð.
Efnahagur og sala fasteignar að Bíldshöfða 9
Bókfært verð eigna félagsins þann 30. september 2013 nam 29.528 m.kr. samanborið við 27.769 m.kr. í árslok 2012. Eigið fé nam 15.308 m.kr. en var 14.514 m.kr. í upphafi ársins. Eiginfjárhlutfall var 51,8% þann 30. september 2013 og námu heildarskuldir og skuldbindingar 14.220 m.kr.
Félagið endurfjármagnaði langtímalán í lok september hjá Íslandsbanka hf. og námu vaxtaberandi skuldir við lánastofnanir og tengda aðila 7.179 m.kr. þann 30. september 2013.
Handbært fé og skuldabréfaeign nam 6.190 m.kr. í lok tímabils, en í byrjun október greiddi félagið 2.189 m.kr. í virðisaukaskatt og aðflutningsgjöld. Eign í hlutdeildarfélögum, öðrum félögum og kröfur á tengda aðila námu 2.693 m.kr., en þar á meðal er fasteignin að Bíldshöfða 9 sem var nýverið seld með fyrirvara um fjármögnun.
Nettó vaxtaberandi skuldir voru því 485 m.kr. að teknu tilliti til greiðslu opinberra gjalda í byrjun október.
Sjóðstreymi á fyrstu níu mánuðum ársins
Handbært fé N1 nam 6.127 m.kr. í lok september en það jókst um 3.619 m.kr. á fyrstu níu mánuðum ársins, samanborið við 2.122 m.kr. aukningu á sama tímabili í fyrra. Handbært fé frá rekstri nam 4.302 m.kr., samanborið við 3.241 m.kr. á sama tímabili árið 2012. Fjárfestingahreyfingar, þ.e. keyptir rekstrarfjármunir að frádregnum þeim seldu, skiluðu félaginu 728 m.kr. á fyrstu níu mánuðum ársins sem að mestu skýrist af innheimtu á söluandvirði fasteignarinnar að Klettagörðum 13 og sölu á Bílanausti í maí, en fjárfestingahreyfingar voru neikvæðar um 208 m.kr. á sama tíma í fyrra. Fjármögnunarhreyfingar, þ.e. greiðslur afborgana og vaxta langtímalána, námu 1.410 m.kr. samanborið við 921 m.kr. á fyrri hluta ársins 2012 sem skýrist af endurfjármögnun á langtímalánum félagsins í lok september 2013.
9 mánaða uppgjör (.pdf)
Nánari upplýsingar veita Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri, (ebg@n1.is) og Eggert Þór Kristófersson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, (eggert@n1.is).