Umhverfisvænir innkaupapokar á stöðvar N1

24. nóvember 2014

Umhverfisvænir innkaupapokar á stöðvar N1

N1 hefur tekið til sölu umhverfisvæna innkaupapoka. Pokarnir eru slitsterkir, búnir til úr maíssterkju og brotna auðveldlega niður á nokkrum vikum. „Þegar Íslenska gámafélagið hafði samband við N1 og bauð okkur að taka þátt í þessu verkefni fannst okkur það samræmast stefnu N1 um samfélagslega ábyrgð og umhverfisvernd. Það var því vel við hæfi að stíga þetta sjálfsagða skref og bjóða pokana til sölu á stöðvum okkar,” segir Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1.

Pokarnir verða fyrst um sinn til sölu á ISO 14001 vottuðum stöðvum N1. Þær eru: Ártúnshöfði, Borgartún, Skógarsel, Fossvogur, Bíldshöfði, Háholt, Hringbraut, Borgarnes og Staðarskáli. Stefnt er að því að skipta út innkaupapokum úr plasti fyrir maísinnkaupapoka á öllum stöðvum N1 innan fárra vikna.

Íslenska gámafélagið er innflutningsaðili pokana. Þeir eru 100% lífrænu efni sem brotnar auðveldlega niður á nokkrum vikum við góð jarðgerðarskilyrði. Þá eru korn og matarolía sem notuð eru til framleiðslunnar ekki erfðabreytt.