Þrítugasta og fjórða N1 mótið

01. júlí 2020

N1 mótið á Akureyri

Þrítugasta og fjórða N1 mótið í knattspyrnu, hefst á Akureyri í dag, 01. júlí og stendur til 04. júlí. N1 mótið er einn umfangsmesti og vinsælasti íþróttaviðburður landsins og rétt tæplega 2.000 ungir drengir leggja land undir fót og etja kappi í vinsælustu íþróttagrein Íslands á N1 mótinu á Akureyri, móti sem fyrir löngu hefur skrifað nafn sitt í knattspyrnusögubækur Íslands. Skráð lið í ár eru 212 talsins og hafa aldrei fleiri lið verið skráð til leiks, en þau voru 204 á síðasta ári sem var metfjöldi. Þátttakendafjöldi er 1.940 talsins og nær nánast sömu höfðatölu og í fyrra, en það var fjölmennasta N1 mótið frá upphafi. Breiðablik úr Kópavogi sendir flest lið til leiks að þessu sinni, eða 16 talsins, en Hafnfirðingarnir í Fimleikafélagi bæjarins fylgja fast á hæla nágranna þeirra og senda 11 lið. Ekkert erlent lið kemur til leiks í ár af skiljanlegum ástæðum.

 

N1 hefur um árabil stutt grasrótarstarf beggja kynja í knattspyrnu á Íslandi og í samningi N1 og KSÍ er hlúð að framtíðarleikmönnum, t.d. í gegnum Hæfileikamótun N1 og KSÍ. Í ár mætir fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaðurinn Arnar Þór Viðarsson til að fylgjast með þátttakendum og því ljóst að margir eiga eftir að sýna sitt besta með hann á hliðarlínunni.

 

Það er ekki ofsögum sagt að N1 mótið sé hápunktur íþróttasumarsins fyrir unga knattspyrnukappa og á mótinu hafa margir verðandi atvinnumenn og landsliðsmenn tekið sín fyrstu alvöru skref. Má reikna með að í ár taki landsliðsmenn framtíðarinnar þátt af sama eldhug og krafti og fyrri kynslóðir og mikilvægi mótsins verður seint ofmetið.

 

Eins og áður fylgir fjöldi aðstandenda, vina og þjálfara keppendum á mótið og má því reikna með þúsundum gesta til Akureyrar í kringum mótið og minna skipuleggjendur á að sýna tillit vegna þess ástands sem ríkt hefur, en einnig umburðarlyndi og þolinmæði meðan á mótinu stendur, hvort sem um er að ræða umferðarmál eða önnur mál sem óhjákvæmilega getað skapað töf.  N1 er styrktaraðili mótsins en framkvæmdin er í höndum KA.