Þrítugasta og annað N1 mótið hefst í dag
Eitt glæsilegasta íþróttamót ársins, N1 mótið í knattspyrnu, hefst á Akureyri í dag, 04. júlí og stendur til 07. júlí. Þetta er í þrítugasta og annað skipti sem tæplega 2.000 ungir drengir flykkjast norður og etja kappi í vinsælustu íþróttagrein landsins á N1 mótinu, móti sem fyrir löngu hefur skrifað nafn sitt í knattspyrnusögubækur Íslands. Skráð lið í ár eru 188 talsins og þátttakendafjöldi er vel yfir 1.800 talsins. Það er nokkuð ljóst að allir munu sigra í þessu móti með einum eða öðrum hætti, ekki síst þar sem órjúfanleg vinátta og ævilangar minningar um góðar stundir myndast á þessu móti.
Það er ekki á neinn hallað þegar því er haldið fram að N1 mótið sé hápunktur íþróttasumarsins fyrir unga knattspyrnukappa og á mótinu hafa margir verðandi atvinnumenn og landsliðsmenn sem nú öttu kappi á HM í Rússlandi, tekið sín fyrstu alvöru skref. Má reikna með að í ár taki landsliðsmenn framtíðarinnar þátt af sama eldhug og krafti og fyrri kynslóðir.
Sem fyrr fylgir mikill fjöldi aðstandenda, vina og þjálfara keppendum á mótið og má því reikna með þúsundum gesta til Akureyrar í kringum mótið. Líkt og undanfarin ár er N1 styrktaraðili mótsins en framkvæmdin er í höndum KA.
„Það er alltaf jafn gaman að taka á móti öllum þessum liðum, sjá spennuna magnast og horfa upp á leikgleðina í augum drengjanna. Við KA-menn erum stoltir af því að hafa umsjón með þessu frábæra móti, samstarfinu við N1 og hlökkum til að taka á móti keppendum, þjálfurum og öðrum þeim sem leggja leið sína hingað norður. Við minnum alla á að njóta tímans hér nyrðra, muna að þetta á að vera gaman og síðast en ekki síst hvetjum við foreldra og forráðamenn til að vera duglegir að taka myndir af drengjunum og merkja með #n1mótið á samfélagsmiðlum og halda þannig áfram að skrá þannig söguna,” segir Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA.
„N1 hefur um langt árabil stutt í orði og á borði íslenska knattspyrnu, ekki síst grasrótarstarf á borð við N1 mótið. Við höfum verið samferða mörgum af fremstu knattspyrnumönnum landsins og höldum því áfram í góðu samstarfi við KA. N1 er stolt af mörgum verkefnum sem það kemur að og N1 mótið er svo sannarlega ofarlega á þeim lista,” segir Þyrí Dröfn Konráðsdóttir, markaðsstjóri N1.