Þrítugasta N1 mótið

29. júní 2016

Þrítugasta N1 mótið

N1 mótið í knattspyrnu hefst á Akureyri í dag, 29. júní og stendur til 2. júlí. Þetta er í þrítugasta skipti sem ungir drengir koma saman og keppa í knattspyrnu á N1 mótinu. Mótið í ár er það langfjölmennasta sem haldið hefur verið frá upphafi, en búist er við um 1.900 keppendum og 182 liðum til þátttöku. 

Fjölskyldur og þjálfarar fylgja keppendum á mótið sem hefur fest sig í sessi sem einn stærsti viðburður sumarsins hjá mörgum. Því er búist við þúsundum gesta til Akureyrar í tengslum við mótið og vilja skipuleggjendur minna vegfarendur á að fara varlega og sýna biðlund í umferðinni.

Mótinu verður komið vel til skila fyrir þá sem vilja ekki missa af neinu. “Við verðum með beina útsendingu í samstarfi við Sporttv.is annað árið í röð, en það mæltist afar vel fyrir í fyrra. Við verðum líka með myndavélar á svæðinu og dróna sem mun mynda mótið úr lofti. Auk þess hvetjum við foreldra til að vera duglegir að að taka myndir af drengjunum og merkja með #n1mótið á samfélagsmiðlum segir  Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA.

N1 er styrktaraðili mótsins en framkvæmdin hefur algerlega verið í höndum knattspyrnufélags Akureyrar, KA. Á síðasta árið endurnýjuðu N1 og KA samstarfssamning sinn vegna mótsins til ársins 2019. “Samstarf okkar við KA er okkur sérstaklega dýrmætt og við erum gríðarlega stolt af því að fá að taka þátt í því stóra verkefni sem N1 mótið er,” segir Þyrí Dröfn Konráðsdóttir, markaðsstjóri N1.