Styrmir Hjalti Haraldsson ráðinn inn á Orkusvið N1
Styrmir Hjalti Haraldsson hefur verið ráðinn í stöðu sérfræðings á Orkusviði N1 þar sem hans helstu verkefni snúa að greiningum á raforkumarkaði. Styrmir kemur til N1 frá Háskólanum í Reykjavík þar sem hann sinnti kennslu við verkfræði- og viðskiptadeildir skólans. Þar áður starfaði Styrmir hjá Samkaupum sem verkefnastjóri í tekjustýringu.
Styrmir er með M.Sc.-gráðu í fjármálum og hagfræði frá The London School of Economics (LSE) og lauk B.Sc.-prófi í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík.
„Það er mikill styrkur í því að fá Styrmi til starfa og kemur hann til N1 með þekkingu í farteskinu sem mun nýtast vel hér á Orkusviði. Góð greining á raforkumarkaði er veigamikill hluti af sókn N1 Rafmagns þegar kemur að sölu raforku til heimila og fyrirtækja og rímar sú áhersla vel við markmið félagsins um aukið vægi á sölu á umhverfisvænni orku. Við bjóðum því Styrmi velkominn til starfa á Orkusvið félagsins sem fer nú sístækkandi í takt við aukin umsvif,“ segir Einar Sigursteinn Bergþórsson, forstöðumaður Orkusviðs N1.