Stuðningssamningur við BUGL endurnýjaður

27. nóvember 2013

Stuðningssamningur við BUGL endurnýjaður

N1, Sjóvá og Lionsklúbbinn Fjörgyn hafa endurnýjað stuðningssamning sinn um rekstur tveggja bíla sem fyrir barna- og unglingageðdeild Landspítala, BUGL.

Fjörgynjarmenn hafa stutt við BUGL í 11 ár með margvíslegum hætti og ber þar hæst rekstur bílanna tveggja.  Þeir voru teknir á rekstrarleigu hjá Íslandsbanka í desember 2007 til þriggja ára og þegar sá samningur rann út keypti klúbburinn þá og færði BUGL að gjöf.  Með fjáröflun og stuðningi frá Sjóvá og N1 hefur Lionsklúbburinn Fjörgyn rekið bílana síðan.

Með samningi sem undirritaður var 22. nóvember 2013 tryggja Fjörgynjarmenn sér áframhaldandi stuðning Sjóvár og N1 við rekstur BUGL bílanna næstu þrjú árin. Sjóvá leggur til ábyrgðar- og kaskótryggingu og N1 eldsneyti á þá.

Bílarnir tveir hafa nýst afar vel í starfi  BUGL. Stærri bíllinn er 9 manna og notaður til þess að fara með krakkana í hinar ýmsu ferðir en sá minni er fyrir vettvangsteymi sem fara heim til fjölskyldna og vinna með börnin í nærumhverfi.