Stærsta N1 mótið frá upphafi hefst í dag

01. júlí 2015

Stærsta N1 mótið frá upphafi hefst í dag

N1 mótið í knattspyrnu hefst á Akureyri í dag, 1. júlí og stendur til 4. júlí. Búist er við um 1800 keppendum og 180 liðum til þátttöku. Auk keppenda af öllu landinu koma þrjú erlend lið á mótið, eitt frá Svíþjóð og tvö frá Færeyjum.

Mótið er langfjölmennasta N1 mótið sem haldið hefur verið og er því búist við þúsundum gesta til Akureyrar.

Mótið verður í beinni útsendingu í samstarfi við Sporttv.is og er það í fyrsta skipti í sögu yngri flokka drengja í fótbolta sem ráðist er í slíka útsendingu. Myndavél verður staðsett á gervigrasinu á meðan á mótinu stendur og önnur myndavél mun vera á ferð um svæðið. Þá verður mótið einnig myndað með dróna úr lofti.

Hashtag mótsins fyrir Instagram er #n1mótið. Skjáir verða víða á keppnissvæðinu þar sem keppendur og gestir geta fylgst með ljósmyndum af mótinu um leið og þeim er hlaðið inn á Instagram.