Siðferðisgáttin opnuð fyrir starfsfólk N1

07. júní 2019

Siðferðisgáttin opnuð fyrir starfsfólk N1

N1 og Hagvangur hafa skrifað undir samning um innleiðingu Siðferðisgáttarinnar fyrir alla starfsmenn fyrirtækisins en þjónustan hefst á næstu dögum.

Með Siðferðisgáttinni gefst starfsmönnum fyrirtækisins tækifæri á að koma á framfæri beint til óháðs teymis innan Hagvangs ef þeir verða fyrir óæskilegri háttsemi á vinnustað sínum eða upplifa vanlíðan í starfi. Það er Festi sem gerir samning við Hagvang, sem mun starfa að slíkum málum sem óháður ráðgjafaraðili í samstarfi við mannauðsstjóra N1.

Markmið Siðferðisgáttarinnar er að styrkja stoðir góðrar vinnustaðarmenningar og að skapa farveg fyrir alla starfsmenn, óháð stöðu, til þes að koma á framfæri til óháðra aðila ef þeir verða fyrir óæskilegri hegðun og fer málið þar með strax í faglegan farveg.

Siðferðisgáttin mun því styðja við bakið á öflugu mannauðsstarfi N1 þar sem megin tilgangurinn er vellíðan starfsmanna og að uppræta framkomu og hegðun sem hvergi á rétt á sér.

 

Frá Hagvangi:

“Það er okkur afar dýrmætt að fá þessi fyrirtæki í þjónustu Siðferðisgáttarinnar þar sem um er að ræða mikinn fjölda starfsmanna, í ólíkum störfum og með ólíkan bakgrunn. Við hlökkum mikið til samstarfsins og erum afar þakklát og ánægð með dótturfélög Festi að taka þátt í þróun á þessari nýju og þörfu þjónustu og sýna þannig í verki að þeim sé annt um vellíðan sinna starfsmanna og eru tilbúin að taka skrefið enn lengra í átt að því ”.

 

Kolbeinn Finnsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Festi:

„Starfsfólkið er okkar dýrmætasta auðlind og með innleiðingu Siðferðisgáttarinnar getum við tekið enn eitt skrefið í að láta öllum starfsmönnum líða vel, finna til öryggis og vita að á það er hlustað ef eitthvað bjátar á. Okkur á öllum að líða vel í vinnunni og við viljum tryggja enn frekar að svo verði með þessum hætti. Við hlökkum til samstarfsins við Hagvang og erum þess fullviss að þetta sé gæfuspor til framtíðar.“