Samruni N1 og Festi

30. júlí 2018

N1 og Samkeppniseftirlitið undirrita sátt.

N1 og Samkeppniseftirlitið undirrita sátt vegna samruna N1 og Festi. Af sáttinni leiðir að N1 verður nú heimilt að taka við rekstri Festi sem rekur matvöruverslanir undir merkjum Krónunnar, Kr, Nóatúns og Kjarvals, ELKO og vöruhótelið Bakkann. Næstu vikur verða nýttar til að undirbúa afhendingu hins selda reksturs. Að öðru leyti eru markmið sáttarinnar og meginefni skilyrðanna eftirfarandi:

  1. Aukið aðgengi nýrra endurseljenda að fljótandi eldsneyti í heildsölu.
  2. Aukið aðgengi að þjónustu hjá Olíudreifingu ehf.
  3. Sala á fimm sjálfsafgreiðslustöðvum til nýrra, óháðra aðila á eldsneytismarkaði. Um er að ræða þrjár sjálfsafgreiðslustöðvar undir merkjum Dælunnar við Fellsmúla og Staldrið í Reykjavík og Hæðarsmára 8 í Kópavogi, og tvær stöðvar undir merkjum N1 við Salarveg í Kópavogi og Vatnagarða í Reykjavík.
  4. Sala á verslun Kjarvals á Hellu.

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1: "Samþykki Samkeppniseftirlitsins á kaupum N1 á Festi er stór og ánægjulegur áfangi í löngu ferli. Miklar breytingar hafa orðið, og munu verða áfram, á þeim mörkuðum sem þessi fyrirtæki starfa á. Þessi viðskipti eru í samræmi við þá framtíðarstefnu sem N1 hefur mótað og kynnt var í desember 2016. Markmið samrunans er skýrt, að hagræða í rekstri og veita viðskiptavinum beggja félaga í kjölfarið öflugri og betri þjónustu. Nú tekur við undirbúningur að framkvæmd afhendingar og samrunans með starfsfólki samstæðunnar og viðskiptavinum".