Rekstur N1 einfaldaður og gerður gagnsærri

20. nóvember 2012

Rekstur N1 einfaldaður og gerður gagnsærri

Bílanaust verður dótturfélag

Fréttatilkynning frá N1 hf.

Stjórn N1 hefur ákveðið að nokkrar sérverslanir félagsins með varahluti, aukahluti í bíla og rekstrarvörur verði færðar í dótturfélag, sem rekið verður sem sjálfstæð eining frá og með áramótum. Tekið verður upp að nýju hið gamalgróna vörumerki Bílanaust og munu verslanir hins nýja félags bera það nafn, sem bílaáhugamenn þekkja frá fyrri tíð. Starfsfólk N1, sem unnið hefur í þessum sérverslunum, verður starfsfólk Bílanausts þegar breytingin tekur formlega gildi um áramót. Framkvæmdastjóri Bílanausts verður Árni Stefánsson, sem hefur veitt vöru- og rekstrarsviði N1 forstöðu.

Höfuðstöðvar Bílanausts verða að Dalvegi 10-14 í Kópavogi.  Á Bíldshöfða 9 verður áfram rekin ein öflugasta sérverslun landsins fyrir bílaáhugamenn undir merkjum nýja félagsins. Verslanir N1, sem taka upp merki Bílanausts, verða einnig í Kópavogi, Hafnarfirði, Keflavík,  Akureyri, Egilsstöðum og Selfossi.
Samfara þessum breytingum hefur 19 starfsmönnum í verslunum og höfuðstöðvum N1 verið sagt upp störfum. Heildarstarfsmannafjöldi Bílanausts verður um 60 manns.

Skipulag N1 verður einnig einfaldað og verða meginsvið félagsins tvö. Einstaklingssvið annast og rekur þjónustustöðvar N1 um land allt ásamt bílaþjónustu, þ.á.m. smurstöðvum og dekkjaþjónustu. Ingunn Sveinsdóttir verður framkvæmdastjóri einstaklingssviðs.  Fyrirtækjasvið annast viðskipti við stórnotendur og fyrirtæki, beint frá höfuðstöðvum félagsins og í verslunum N1 í Reykjavík, Grindavík, Akranesi, Ólafsvík, Akureyri, Reyðarfirði, Höfn í Hornafirði og Vestmannaeyjum. Hinrik Bjarnason verður framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs.  Hinrik hefur undanfarin ár starfað sem framkvæmdastjóri Eimskips í Þýskalandi, en kemur til starfa hjá N1 í janúar. Framkvæmdastjóri fjármálasviðs er Eggert Þór Kristófersson og framkvæmdastjóri starfsmannasviðs er Kolbeinn Finnsson. Markaðsdeild verður stoðdeild, sem heyrir beint undir forstjóra.  Markaðsstjóri er Katrín Guðjónsdóttir.
Stefnt er að skráningu N1 hf. í Kauphöll Íslands á næsta ári og munu Arion banki og  Íslandsbanki annast skráninguna.

Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1;

„Markmiðið með þessum breytingum er fyrst og fremst að efla þjónustu við viðskiptavini N1 á öllum sviðum. Með því að skipta félaginu upp í einstaklingssvið og fyrirtækjasvið munum við enn betur geta uppfyllt þarfir okkar viðskiptavina. Að sama skapi munu viðskiptavinir Bílanausts fá enn betri og sérhæfðari þjónustu í verslunum Bílanausts. Afkoma þess hluta hefur ekki verið viðunandi og með því að skipta honum út í sérstakt félag og hagræða um leið í rekstrinum munum við styrkja hann til framtíðar.  Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð við endurvakningu Bílanaustsnafnsins, bæði frá starfsfólki og birgjum. Auðvitað er alltaf erfitt að þurfa að segja upp starfsfólki, en með þessum aðgerðum teljum við að hægt sé að snúa rekstri Bílanausts til betri vegar.“

Árni Stefánsson, framkvæmdastjóri Bílanausts;

„Þetta er spennandi verkefni. Vörumerkið Bílanaust er þekkt fyrir gæði og gott verð.  Við erum með topp starfsfólk og fjölda frábærra vörumerkja.  Við munum leggja okkur fram um að þjóna bíleigendum og fyrirtækjamarkaði með snerpu, hagkvæmum lausnum og vandaðri þjónustu.  Félagið mun byggja á traustum grunni og kynna ýmsar nýjungar í vöruúrvali og þjónustu á nýju ári.”
Eftir þessar breytingar starfa um sjö hundruð starfsmenn hjá N1 um land allt. Félagið rekur  hátt í eitt hundrað sjálfsafgreiðslu- og þjónustustöðvar víðsvegar um land, ellefu verkstæði og átta verslanir fyrir stórnotendur í öllum landshlutum.

Nýtt skipurit N1. Markmiðið með breytingunum nú er að auka gagnsæi og einfalda rekstur félagsins.
Skipurit N1 í pdf formi

Nánari upplýsingar veitir Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1 (ebg@n1.is)