Öryggi frá fyrsta til síðasta kílómetra - Viðtal við Hermann Elí Hreinsson, vörustjóra hjólbarða

20. apríl 2018

Öryggi frá fyrsta til síðasta kílómetra - Viðtal við Hermann Elí Hreinsson, vörustjóra hjólbarða

N1 er í nánu samstarfi við Michelin og selur sérlega vandaða hjólbarða frá þessum þekktasta hjólbarðaframleiðanda heims og stenst um leið ströngustu gæðakröfur hans varðandi búnað og þjónustu.

 

Michelin er án efa þekktasti hjólbarðaframleiðandi heims. Fyrirtækið var stofnað árið 1888 af frönskum bræðrum, þeim André og Edouard Michelin, og er því orðið 130 ára gamalt.  Michelin er eitt þekktasta merki heims, enda kannast flestir við Bibendum, eða Michelin manninn, sem er einskonar táknmynd hjólbarða í heiminum. N1 og tengd fyrirtæki hafa verið samstarfsaðilar Michelin á Íslandi áratugum saman.

Leiðandi í þróun

„Michelin hefur alla tíð verið leiðandi í framþróun hjólbarða í heiminum og komið fram með byltingarkenndar nýjungar í gegnum tíðina. Þar má nefna radial uppbygginguna á hjólbörðum sem allir framleiðendur notast við í dag, ásamt silica gúmmíblöndu sem gefur þeim möguleika á að hámarka endingu án þess að fórna gripi,“ segir Hermann Elí Hreinsson, vörustjóri hjólbarða hjá N1. „Það sem gerir Michelin kleift að vera leiðandi á markaði er þrotlaus þróunarvinna, sem sést best í því að enginn framleiðandi í heiminum er með fleiri starfsmenn helgaða þróun og prófunum á hjólbörðum eins og Michelin, en fyrirtækið hefur yfir 6.000 starfsmenn í fullu starfi við þá vinnu.“

Vönduð dekk fyrir allar aðstæður

„Michelin vinnur undir slagorðinu „Total Performance“, sem má best skýra með því að þeir vilja vera framarlega eða fremstir á öllum sviðum,“ segir Hermann. „Þeir eru ekki tilbúnir að fórna gæðum á einu sviði til að auka getu á öðru sviði, t.d. með því að draga úr gripi til að auka endingu.

Michelin er annt um að viðskiptavinir þeirra finni fyrir öryggi yfir allan líftíma hjólbarðans og leggur því gríðarlega mikla vinnu í að hjólbarðinn haldi eiginleikum sínum vel, hvort sem um er að ræða bremsuvegalengd, stýrissvörun eða vatnslosun í gegnum líftíma dekksins,“ segir Hermann.

„Þetta má sjá glöggt í nýju sumardekki frá þeim sem heitir Michelin Cross Climate+. Það er sumardekk fyrir norðlægar slóðir sem hefur vetrareiginleika, sem þýðir að viðskiptavinir geta sett þau undir fyrr á vorin og tekið þau undan seinna á haustin,“ segir Hermann. „Dekkin veita viðskiptavinum mikið öryggi, því þó það komi örlítið hret eru Michelin Cross Climate+ réttu dekkin til að mæta því og getur fólk þar af leiðandi verið rólegt þar til kemur að dekkjaskiptum.

Ofan á þessa eiginleika er Cross Climate+ endingarbesta sumardekkið á markaðnum í dag og prófanir hlutlausra aðila á slitnum dekkjum hafa sýnt að þau halda gripi og öðrum eiginleikum yfir allan líftímann mun betur en dekk helstu samkeppnisaðila,“ segir Hermann. „Þetta verður til þess að viðskiptavinir geta nýtt dekkin til hins ýtrasta og þar af leiðandi er kostnaður á ekinn kílómetra minni, svo ekki sé minnst á umhverfisáhrifin, því færri dekkjum er fargað ef ekið er á Michelin.“

Standast ströngustu kröfur

„N1 leggur mikið uppúr því að standast þær kröfur sem viðskiptavinir hafa varðandi þjónustu. Þar hefur samstarf við Michelin hjálpað okkur mikið. Öll hjólbarðaverkstæði N1 hafa hlotið „Michelin Quality dealer“ vottun, en þá vottun fá eingöngu þau hjólbarðaverkstæði sem uppfylla ströngustu gæðakröfur Michelin,“ segir Hermann.

„Michelin gerir strangar kröfur varðandi gæði ýmissa þjónustuþátta. Dæmi um kröfurnar sem hjólbarðaverkstæði N1 standast eru kröfur um umhirðu og vinnubrögð með hjólbarða, upplýsingagjöf til viðskiptavina, móttaka og öryggi viðskiptavina, þjálfun og endurmenntun starfsmanna, aðbúnað á verkstæðum, öryggi starfsmanna, tæki, tól og vinnubrögð á verkstæðum og viðbrögð við ábendingum og spurningum viðskiptavina,“ segir Hermann. „N1 er stoltur samstarfsaðili Michelin og mun halda áfram að vinna hörðum höndum að því að upplifun viðskiptavina sé eins og best verður á kosið.“