ON og N1 reisa hlöður við hringveginn

13. mars 2017

ON og N1 reisa hlöður við hringveginn

Orka náttúrunnar og N1 ætla í sameiningu að reisa hlöður fyrir rafbíla með fram helstu þjóðvegum landsins. Stjórnendur fyrirtækjanna hafa skrifað undir samkomulag um að hlöður ON rísi á afgreiðslustöðvum N1 víðsvegar um land. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Orka náttúrunnar hefur þegar reist 13 hlöður í samstarfi við ýmsa aðila, þar á meðal fyrir N1. Nú stefnir ON að því að opna allan hringveginn fyrir rafbílum á næstu misserum. ON hefur einnig aukið upplýsingagjöf til rafbílaeigenda með útgáfu smárforritsins ON Hleðsla fyrir Android og iPhone. ON Hleðsla veitir meðal annars upplýsingar um vegalengd í næstu hlöðu, hvar hún er, hvaða hleðslubúnaður er í henni og hvort hún sé laus eða upptekin.

Aðspurð um ástæðu þessa nýtilkomna samstarfs segir Guðný Rósa framkvæmdastjóri einstaklingssviðs: "Við viljum að viðskiptavinir N1 geti nálgast þá orkugjafa sem þeir þurfa á þjónustustöðvum okkar og þetta samkomulag við ON þýðir að rafbílseigandi getur hlaðið bílinn fyrir utan þjónustustöðina á meðan hann fær sér vörur og veitingar inni á stöðinni. Það tekur um 20 mínútur að hlaða rafbíl og það er mikilvægt fyrir ökumann og farþega að geta slakað á í notalegu umhverfi, fengið sér kaffibolla eða aðra hressingu, á meðan bíllinn er í hleðslu. Okkar hlutverk hjá N1 er að bjóða upp á hverja þá orku sem þörf er fyrir bæði á plani og inni í versluninni og ákváðum við að ganga til liðs við ON þar sem fyrirtækið er leiðandi í uppbyggingu innviða fyrir rafbíla".