Ný viðgerðaraðstaða fyrir hjólreiðafólk
Ný viðgerðaraðstaða fyrir reiðhjól var sett upp í gær við N1 í Fossvogi. Hjólaveggurinn er fyrstur sinnar tegundar hér á höfuðborgarsvæðinu en við stefnum á að setja upp fleiri slíkar stöðvar á næstu vikum. Um er að ræða viðgerðarstand sem er með verkfærum, loftpumpu og fleiri tólum sem hægt er að nýta til smáviðgerða og hægt er að hengja hjólið uppá standinn til að auðvelda viðgerð.
“Við leggjum metnað okkar í að þjónusta allt fólk sem er á ferðinni og þar er hjólreiðafólk stór og vaxandi hópur. Auk nýju útiaðstöðunnar erum við með hjólatengdar vörur inná stöðinni t.d. slöngur, dekk, ljós, pumpur og hnakka, svo hægt er að nálgast allt á einum stað. Við erum afar ánægð með þessa aðstöðu sem hefur nú þegar fengið frábærar viðtökur meðal hjólreiðafólks.” segir Páll Örn Líndal, rekstrarstjóri þjónustustöðva N1, en miklar og jákvæðar umræður hafa nú þegar skapast um hjólavegginn á Facebooksíðunni Reiðhjólabændur.
Mikil eftirspurn hefur verið eftir slíkri aðstöðu meðal reiðhjólafólks en svipaðar stöðvar eru vel þekktar víða erlendis. Hér er því um að ræða mikla og tímabæra bót á aðstöðu fyrir hjólreiðar á höfuðborgarsvæðinu.