Ný viðgerðaraðstaða fyrir hjólreiðafólk á Akureyri

30. október 2019

Ný viðgerðaraðstaða fyrir hjólreiðafólk á Akureyri

Ný viðgerðaraðstaða fyrir reiðhjól hefur nú verið sett upp við N1 á Leirunni en aðstaðan er sett upp í samstarfi við Hjólalausnir. Um er að ræða viðgerðarstand sem er með verkfærum, loftpumpu og fleiri tólum sem hægt er að nýta til smáviðgerða en einnig er hægt að hengja hjólið uppá standinn til að auðvelda viðgerð.

 

“Við leggjum metnað okkar í að þjónusta allt fólk sem er á ferðinni og þar er hjólreiðafólk stór og vaxandi hópur. Auk nýju útiaðstöðunnar erum við með hjólatengdar vörur inná stöðvum t.d. slöngur, bætur, lása o.fl. svo hægt er að nálgast ýmislegt tengt hjólreiðum á einum stað. Við erum afar ánægð með þessa aðstöðu sem hefur nú þegar fengið frábærar viðtökur meðal hjólreiðafólks þar sem við höfum sett svona standa upp.” Segir Jón Viðar Stefánsson, rekstrarstjóri þjónustustöðva N1.

 

Mikil eftirspurn hefur verið eftir slíkri aðstöðu meðal reiðhjólafólks en svipaðar stöðvar eru vel þekktar víða erlendis. 

 

„Við viljum vera til staðar til að þjónusta þann ört vaxandi hóp sem kýs hjólreiðar sem samgöngumáta eða íþrótt en þetta er fimmti hjólaveggurinn sem N1 setur upp. Fyrir erum við með fjóra hjólaveggi á höfuðborgarsvæðinu á þjónustustöðvum okkar við Fossvog, Skógarsel, í Borgartúni og í Mosfellsbæ og unnið er að því að setja upp viðgerðaraðstöðu á fleiri landsbyggðarstöðvum,“ segir Jón Viðar.