Niðurstöður útboðs á hlutabréfum í N1
Mikil umframeftirspurn var eftir hlutabréfum N1 hf. í almennu útboði sem lauk 9. desember síðastliðinn og bárust alls um 7.700 áskriftir. Útboðið var tvískipt og verða 18% hluta í félaginu seld á 18,01 krónu á hlut í tilboðsbók B en 10% seld á 15,3 krónur á hlut í tilboðsbók A. Heildarstærð útboðsins nemur 280 milljónum hluta og er heildarsöluandvirði þeirra 4.770 milljónir króna.
Þátttakendur í tilboðsbók A skiluðu um 7.200 áskriftum og í ljósi mikillar þátttöku er hámarksúthlutun um 183.000 krónur að kaupverði á hverja áskrift. Áskriftir að lægri fjárhæðum ásamt áskriftum viðskiptavaka og fastráðinna starfsmanna N1 eru ekki skertar.
Áskriftir í tilboðsbók B voru metnar á grundvelli verðs og verða hlutir seldir til þeirra aðila sem buðu hæst. Alls var 31 áskrift samþykkt. Áskriftir sem bárust á verði yfir útboðsgengi í tilboðsbók B eru ekki skertar en áskriftir sem bárust á því gengi eru skertar hlutfallslega.
Seljendur í útboðinu eru FSÍ (Framtakssjóður Íslands) slhf. og Íslandsbanki hf., sem hefur ákveðið að nýta heimild sína til að stækka útboðið úr 25% hluta í N1 upp í 28% en aukningunni er ráðstafað í tilboðsbók B. Í október síðastliðnum nýtti hópur fjárfesta rétt sinn á að kaupa 18% hlut í félaginu af FSÍ og Íslandsbanka. Þessir tveir aðilar hafa því að útboðinu loknu selt samtals 46% hlutafjár í N1 á fjórða ársfjórðungi 2013.
Íslandsbanki annast framkvæmd útboðsins og mun senda fjárfestum tilkynningu um úthlutun í útboðinu og greiðslufyrirmæli þegar NASDAQ OMX Iceland hf. hefur staðfest að hlutabréf N1 verði tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallarinnar.
Gert er ráð fyrir að gjalddagi og eindagi greiðsluseðla vegna útboðsins verði 17. desember næstkomandi og greidd hlutabréf verði afhent 18. desember. Gert er ráð fyrir að 19. desember geti viðskipti hafist með hlutabréf N1 á Aðalmarkaði, en Kauphöllin mun tilkynna um fyrsta viðskiptadag með minnst eins dags fyrirvara. Arion banki hefur umsjón með því ferli að fá hlutabréfin tekin til viðskipta.
Listi yfir 20 stærstu hluthafa N1 verður birtur fyrir opnun markaða fyrsta viðskiptadags félagsins.
Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1: „Það er stjórnendum og starfsfólki N1 mikið ánægjuefni hversu vel fjárfestar hafa tekið félaginu í tengslum við skráningu þess í Kauphöll. Verður hluthafahópur félagsins einn sá fjölmennasti meðal skráðra félaga og eignarhald þess vel dreift á milli almennings og fagfjárfesta. Fyrir hönd N1 býð ég nýja hluthafa velkomna og hlakka til að eiga með þeim farsælt samstarf.“
Nánari upplýsingar veita:
Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1 í síma 440 1000
Hafliði Helgason, Framtakssjóði Íslands, í síma 864 6350, tölvupóstur: haflidi@framtakssjodur.is
Dögg Hjaltalín, Íslandsbanka, í síma 440 3925, tölvupóstur: dogg.hjaltalin@islandsbanki.is