N1 verður einn helsti styrktaraðili Slysavarnafélagsins Landsbjargar
Slysavarnafélagið Landsbjörg mun njóta víðtæks stuðnings N1 í störfum sínum næstu árin. Samningur þessa efnis var undirritaður við upphaf landsþings Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem haldið er í Reykjanesbæ um helgina.
Stuðningur N1 felst bæði í árlegu fjárframlagi til starfseminnar á landsvísu og í veglegum afsláttum af öllum þeim bílavarahlutum, aukahlutum, eldsneyti og bílaþjónustu sem deildirnar þurfa um land allt.
Sigurgeir Guðmundsson, formaður SL, segir samninginn sérstaklega hagstæðan, því í honum sameinist fjárhagsstuðningur og lækkað verð á bílavörum og eldsneyti sem eru veigamikill útgjaldaliður fyrir björgunarsveitir um land allt. „Þetta samstarf hentar mjög vel fyrir okkur. Við erum til dæmis með rúmlega hundrað sveitir og N1 er með rúmlega hundrað útsölustaði, þannig að báðir aðilar teygja sig hringinn i kringum landið“.
Slysavarnafélagið Landsbjörg eru landssamtök björgunarsveita og slysavarnadeilda á Íslandi. Starf samtakanna byggist á sjálfboðaliðum og er allt rekstrarfé fengið með fjáröflunum eða með styrkjum. Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar eru um 100 talsins, staðsettar víðs vegar um landið með það að markmiði að vera til taks hvar og hvenær sem þess er þörf. Í félaginu eru um 18.000 félagar en á sjöunda þúsund eru á útkallsskrá og þar af eru rúmlega 3.000 virkir í starfi sveitanna.
Á myndinni má sjá Guðjón Auðunsson, framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs N1, Hermann Guðmundsson, forstjóra N1, Sigurgeir Guðmundsson, formann stjórnar Slysavarnafélagsins Landsbjargar SL, Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóra SL og Jón Gunnarsson fyrrverandi framkvæmdastjóra SL