N1 um frummatskýrslu Samkeppniseftirlitsins

30. nóvember 2015

N1 um frummatskýrslu Samkeppniseftirlitsins

Samkeppniseftirlitið birti í dag drög að frummatsskýrslu sinni um eldsneytismarkaðinn hér á landi. Er um að ræða lið í markaðsrannsókn Samkeppniseftirlitsins á eldsneytismarkaðnum, sem hófst í júní 2013. Við fögnum útgáfu skýrslunnar sem er mjög yfirgripsmikil og staðfestir að virk og heilbrigð samkeppni ríkir á íslenskum eldsneytismakaði.

Við fengum aðgang að hluta skýrslunnar síðastliðinn föstudag og þrátt fyrir að hafa haft mjög skamman tíma til að kynna sér drög að frummatsskýrslunni, við teljum rétt að koma strax á framfæri opinberlega sjónarmiðum félagsins um nokkra þætti hennar.

Engin brot á samkeppnislögum

Mikilvægt er að halda til haga að ekki er um að ræða rannsókn á meintum brotum gegn samkeppnislögum, og raunar kemur fram í frummatsskýrslunni að á þeim tæplega 30 mánuðum sem rannsóknin hefur staðið hafa engar vísbendingar komið fram um brot íslenskra olíufélaga á samkeppnisreglum.

Í skýrslunni birtist frummat Samkeppniseftirlitsins að á eldsneytismarkaði séu til staðar tilteknar aðstæður sem raski samkeppni.

Álagning á bifreiðaeldsneyti á Íslandi

Í frummatsskýrslunni er staðhæft að álagning á bifreiðaeldsneyti til einstaklinga hér á landi sé óþarflega há og séu neytendur að greiða 3,2-3,6 milljörðum króna (án vsk) meira árlega fyrir bifreiðaeldsneyti en þeir þyrftu að gera ef samkeppnishömlur væru ekki til staðar. Samkvæmt frummati Samkeppniseftirlitsins er þetta skýr vísbending um að samkeppnishömlur séu til staðar.

N1 telur forsendur Samkeppniseftirlitsins rangar í þessum efnum, þar sem útreikningar í skýrslunni á smásöluverði eldsneytis á Íslandi byggja í meginatriðum á samanburði við Bretland, sem er augljóslega mun stærri og þéttbýlli markaður. Ef eldsneytisverð á Íslandi (án opinberra gjalda) væri 14-16 krónum lægra, líkt og Samkeppniseftirlitið virðist telja eðlilegt, væri það lægra eða svipað meðalverði bensíns í OECD löndum, til dæmis lægra en í Danmörku og á sama reki og í Svíþjóð. Það er því miður ekki raunhæft enda ljóst að landfræðileg staða Íslands, smæð markaðarins, hár hlutfallslegur flutnings- og dreifingarkostnaður og hár fjármagnskostnaður hefur óhjákvæmilega í för með sér að verð á eldsneyti sé nokkuð hærra hér á landi en í flestum OECD löndum.

Mikilvæg vísbending um að álagning eldsneytis hér á landi sé ekki of há er sú staðreynd að arðsemi af rekstri íslenskra olíufélaga á síðustu árum er minni en almennt þykir eðlilegt að gera kröfur um. Þetta er raunar staðfest í frummatsskýrslunni.

Þegjandi samhæfing

Samkeppniseftirlitið fullyrðir í skýrslunni að á markaði fyrir smásölu bifreiðaeldsneytis hér á landi séu sterkar vísbendingar um að olíufélögin samhæfi hegðun sína með þegjandi samhæfingu, m.a. þar sem gagnsæi á markaðnum geri keppinautum kleift að fylgjast að án þess að eiga í beinum eða óbeinum samskiptum sín á milli.

N1 vísar því alfarið á bug að einhvers konar meðvituð eða ómeðvituð samhæfing verðlagningar á bifreiðaeldsneyti sé til staðar. Félagið og starfsmenn þess finna þvert á móti fyrir harðvítugri samkeppni á smásölumarkaði eldsneytis, þar sem félögin öll keppa í sífellu um viðskipti einstaklinga með margvíslegum hætti, svo sem afsláttartilboðum og aukinni þjónustu. Umfangsmiklar markaðsaðgerðir allra olíufélaganna allt árið um kring eru að mati félagsins órækur vitnisburður um heilbrigða samkeppni.

Of mikið gagnsæi?- Er það til? 

Samkeppniseftirlitið vísar til þess í rökstuðningi sínum í þessum efnum að gagnsæi sé of mikið á eldsneytismarkaði og verðupplýsingar séu of tíðar og nákvæmar. N1 á erfitt með að taka undir þessi sjónarmið og telur fremur að sú mikla vinna sem aðilar á markaði virðast leggja í verðgreiningar, ef marka má skýrsluna, sé vitnisburður um virka samkeppni um hylli neytanda. Þá kemur fram í frummatsskýrslunni að N1, sem hefur mesta markaðshlutdeild olíufélaga, sé nær undantekningarlaust fyrst félaga til að lækka verð, sem hlýtur að teljast til hagsbóta fyrir neytendur.
Lóðrétt samþætting

Í frummatsskýrslunni er sú staðreynd að íslensku olíufélögin starfa flest á öllum stigum markaðarins (s.s. innflutningi, birgðahaldi, dreifingu, heildsölu og smásölu), og teljast því lóðrétt samþætt, talin hamla samkeppni.

Olíudreifing Ísland

Annað tveggja félaga sem annast birgðahald og dreifingu hér á landi er Olíudreifing, sem er og hefur verið lengi í sameiginlegri eigu N1 og Olís. Olíudreifing starfar á grundvelli ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins frá árinu 1995. N1 telur mörg fordæmi sanna að þetta fyrirkomulag birgðahalds og dreifingar hér á landi hamli ekki samkeppni heldur sé til þess fallið að halda kostnaði í skefjum, neytendum til hagsbóta. Telji Samkeppniseftirlitið hins vegar, nú eða síðar, að forsendur fyrri ákvarðana eftirlitsins í þessum efnum hafi breyst og að ástæða sé til að breyta fyrirkomulagi er varðar Olíudreifingu er N1 að sjálfsögðu til viðræðna um það. Hefur félagið raunar sýnt frumkvæði í þeim efnum.

Afskipti hins opinbera; Regluverk, skipulagsmál og Flutningsjöfnunarsjóður
Í frummatsskýrslunni kemur fram það mat Samkeppniseftirlitsins að margs konar regluverk og framkvæmd stjórnvalda, s.s. framkvæmd og umgjörð skipulagsmála, ásamt umgjörð og upplýsingamiðlun Flutningsjöfnunarsjóðs, sé ekki til þess fallið að auka samkeppni.

Við tökur undir þessi sjónarmið, a.m.k. að hluta til og fögnum því ef endurbótum verður komið á hvað sum tilgreind atriði varðar, t.a.m. varðandi umgjörð Flutningsjöfnunarsjóðs.

Frumkvæði að úrbótum

Að lokum er rétt að ítreka að í samræmi við það ferli sem nú tekur við mun N1 á næstunni koma á framfæri frekari sjónarmiðum og formlegum athugasemdum félagsins við frummatsskýrslu Samkeppniseftirlitsins. Leiðarljós okkar, sem fyrr, er að hafa frumkvæði að úrbótum á eldsneytismarkaði þar sem þeirra er þörf.