17. ágúst 2016

N1 styrkir barna- og unglingastarf GKG

Allt frá stofnun GKG hefur verið lögð mikil áhersla á barna- og unglingastarf. Slík nálgun er forsendan fyrir því að fjölga iðkendum í íþróttinni og hefur leitt af sér að í GKG  eru um 600 börn og unglingar sem nýta sér þjónustu GKG á hverju ári. Þetta er um þriðjungur allra barna sem iðka golfíþróttina á Íslandi og fleiri krakkar en í öllum hinum golfklúbbunum á höfuðborgarsvæðinu samanlagt. Þessi fjöldi barna og unglinga vekur verulega eftirtekt í Evrópu en sem dæmi má nefna að stærsti golfklúbbur Danmerkur er með 180 börn og unglinga.

Þegar Agnar Már Jónsson, framkvæmdastjóri GKG, er spurður um gildi svo öflugs barna- og unglingastarfs segir hann: ,,Það að iðka golfíþróttina sem barn og unglingur hefur marga jákvæða þætti. Í fyrsta lagi er það forvarnagildið en það er margsannað að þau börn- og unglingar sem iðka íþróttir leiðast síður út í óreglu. Í öðru lagi þá er uppeldisgildi golfíþróttarinnar með öðrum hætti en tíðkast í flestum öðrum íþróttum. Krökkum er kennt að bera virðingu fyrir hvort öðru innan vallar sem utan, vera með heiðarleika og kurteisi að leiðarljósi og sýna náttúrunni auðmýkt. Í þriðja lagi þá er það ómetanleg fjárfesting fyrir einstakling að læra golfsveifluna á unga aldri. Golfíþróttina er hægt að stunda fram eftir öllum aldri og þeir aðilar sem ná ungir tökum á sveiflunni munu njóta þess út ævina."

N1 leggur kapp við að styrkja íþrótta- og æskulýðsstarf um land allt og er stolt af því að geta staðið þétt við bakið á barna- og unglingastarfi GKG. Sá stuðningur hefur leitt af sér að GKG hefur getað aukið enn frekar við þjónustu við börn og unglinga en dæmi um slíkt er að GKG sendi í fyrsta sinn fimm sveitir á Íslandsmót golfklúbba 15 ára og yngri þetta árið.