N1 skráð á markað

19. desember 2013

N1 skráð á markað

NASDAQ OMX (NASDAQ:NDAQ) tilkynnir að í dag hefjast viðskipti með hlutabréf verslunar- og þjónustufyrirtækisins N1 hf. (N1) á Aðalmarkaði NASDAQ OMX Iceland. N1 tilheyrir atvinnugreininni neytendaþjónustu og flokkast sem lítið félag (e. small cap). N1 er sextánda félagið sem skráð er á NASDAQ OMX Nordic á árinu og það þriðja á NASDAQ OMX Iceland. Viðskipti  með félagið verða undir auðkenninu N1.
 
N1 er eitt stærsta verslunar- og þjónustufyrirtæki landsins. Félagið sér fólki og fyrirtækjum um land allt fyrir eldsneyti, rekstrarvörum, veitingum og afþreyingu með öflugu dreifikerfi, markvissu vöruvali og persónulegri þjónustu.  N1 rekur
hátt á annað hundrað þjónustustöðvar, sjálfsafgreiðslustöðvar, verkstæði og fyrirtækjaverslanir hringinn í kringum landið.
 
Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1: „N1 fagnar því að vera orðið skráð félag á markaði með stóran og öflugan hóp hluthafa.  Afar góðar viðtökur við útboði á hlutabréfum félagsins eru okkur starfsmönnum félagsins mikil hvatning og tengja okkur enn betur við okkar stóra viðskiptamannahóp út um allt land.  Við hlökkum til að vinna með þessum stóra hópi við að efla félagið enn frekar.”
 
„Við bjóðum N1 hjartanlega velkomið á markaðinn.” sagði Páll Harðarson, forstjóri NASDAQ OMX Iceland. „Fyrirtækið er frábær viðbót við íslenska hlutabréfamarkaðinn, en aukin fjölbreytni í atvinnugreinum á markaði er afar mikilvæg í uppbyggingu hans. Eftirspurn í nýafstöðnu hlutabréfaútboði er til merkis um áhuga almennings á félaginu, enda er félagið afar nátengt daglegu lífi margra Íslendinga. Við hlökkum til að styðja félagið á nýrri vegferð þess á markaði.“
 
Íslandsbanki og Arion banki voru umsjónaraðilar með skráningunni og sjá einnig um viðskiptavakt með bréfin.

Viðtal við Eggert Benedikt Guðmundsson af þessu tilefni