N1 setur fjölvirk bætiefni í allt bílaeldsneyti án viðbótarkostnaðar fyrir viðskiptavini

12. júlí 2012

N1 setur fjölvirk bætiefni í allt bílaeldsneyti án viðbótarkostnaðar fyrir viðskiptavini

Auka afl um allt að 8%, draga úr eldsneytiseyðslu og minnka mengun.

N1 blandar sérstökum fjölvirkum bætiefnum í allt bensín og díselolíu án viðbótarkostnaðar fyrir viðskiptavini. Þessi bætiefni hreinsa vélarnar og halda þeim hreinum, viðhalda upphaflegu afli þeirra, og draga m.a. þannig úr eldsneytiseyðslu. Einnig verður útblástursmengun minni. Efnin eru af fjórðu kynslóð fjölvirkra bætiefna (multifunctional additives).

Svona virka bætiefnin í eldsneytinu á N1

  • Allt að 8% meira afl í vélum m.v. óblandað eldsneyti*
  • Allt að 3% minni eldsneytiseyðsla, m.v. eldsneyti án bætiefna*
  • Minni útblástursmengun
  • Vörn gegn tæringu og sliti í eldsneytiskerfi
  • Hreinni vél og hreinni smurolía
  • Minna kaldræsiglamur, hávaði og reykur í díselvélum
  • Freyðivörn í díselolíu (áfylling fljótlegri og hreinlegri)

*Skv. prófunum þýsku rannsóknarstofunnar APL á 2.0L Daimler-Chrysler bensínvél.

Herbert Herbertsson, eldsneytisráðgjafi N1, segir að víða um heim sé bundið í lög að blanda skuli efnum af þessu tagi í eldsneyti. „Enginn sem selur bílaeldsneyti í þeim löndum sem við berum okkur saman við, treystir sér til þess að selja eldsneyti á fjölvirkra bætiefna, enda eru þau hluti af kröfum og viðurkenningum heimssamtaka bílaframleiðenda, ACEA (Evrópa), Alliance (USA), EMA (USA), og JAMA (Japan) fyrir eldsneyti á þeirra bíla.“

Herbert segir blöndun bætiefnanna hjá N1 hérlendis að eigin frumkvæði með hagsmuni viðskiptavina og bætta frammistöðu og endingu bílvéla að leiðarljósi. „Stórnotendur á borð við atvinnubílstjóra finna auðvitað muninn og við höfum fengið að heyra margar jákvæðar umsagnir frá þeim, ekki síst frá þeim sem keyra nýjustu bílana“, segir Herbert. Bætiefnin séu í raun nauðsynleg viðbót við venjulegt eldsneyti til að standast strangar kröfur helstu bílaframleiðenda  heims.

---
Nánari upplýsingar veitir Herbert Herbertsson, eldsneytisráðgjafi N1, í síma 660 3318.