N1 selur Bílanaust

08. maí 2013

N1 selur Bílanaust

N1  hefur selt Lárusi Blöndal Sigurðssyni og meðfjárfestum allan rekstur Bílanaust.

Lárus Blöndal Sigurðsson og meðfjárfestar hafa skrifað undir samning um kaup á rekstri Bílanausts, kaupverð er trúnaðarmál.
Bílanaust er leiðandi fyrirtæki á innanlandsmarkaði á sviði varahluta og bílatengdra vara. Bílanaust býr yfir landsins mesta úrvali varahluta og rekur stærstu bílavöruverslun landsins ásamt því að bjóða upp á vörulínur sem henta iðnfyrirtækjum vel. Fyrirtækið byggir á traustum grunni sem rekja má aftur til ársins 1962 þegar Matthías Helgason stofnaði Bílanaust.

Bílanaust rekur sjö verslanir. Stærsta verslunin er á Bíldshöfða 9 í Reykjavík en einnig eru verslanir í Kópavogi, Hafnarfirði, Keflavík, á Selfossi, Akureyri og Egilsstöðum.
Jafnframt rekur fyrirtækið öfluga söludeild og fyrirtækjaþjónustu með reynslumiklum sölumönnum og vörumerkjastjórum.
Bílanaust kappkostar að bjóða vörur frá leiðandi birgjum á samkeppnishæfu verði. Sem dæmi um þekkt vörumerki sem Bílanaust dreifir eru Bosch, Varta, Glasurit, Nipparts, ABS, Comma, Hella, NGK, Förch, FRAM, Osram, Turtle Wax og Mothers.

Fyrirtækjaráðgjöf MP Banka var ráðgjafi N1 við söluna. 

Eggert Benedikt Guðmundsson:
„Bílanaust er rótgróið fyrirtæki sem N1 hefur verið stolt af, en sala þess er liður í því að skerpa á kjarnastarfsemi N1. Við vonumst til að eiga áfram gott samstarf við Bílanaust á næstu árum.“

Lárus Blöndal Sigurðsson:
„Við sjáum mikil tækifæri í Bílanausti og höfum mikla trú á framtíð þess.  Mikil reynsla og sérfræðiþekking starfsfólks, gæði og gott verð, hafa verið einkennisstef Bílanausts.  Stefnan er að halda áfram á sömu braut og munum við leggja áherslu á að veita viðskiptamönnum okkar, bestu þjónustu sem völ er á.“

Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Nánari upplýsingar veita Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri, (ebg@n1.is) og Eggert Þór Kristófersson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, (eggert@n1.is).