N1 Reyðarfirði í stóru hlutverki

17. febrúar 2014

N1 Reyðarfirði í stóru hlutverki

Tökur á fyrstu seríu af bresku sjónvarpsþáttunum Fortitude standa sem hæst þessi misserin á Reyðarfirði. Þættirnir fjalla um smábæinn Fortitude sem er talinn vera einn öruggasti bær í heimi þangað til vísindamaður í bænum er myrtur og allir liggja undir grun.

Glæpurinn setur allt á annan endann í Fortitude og enginn er óhultur. Tökurnar eru mjög umsvifamiklar en þær munu standa með hléum þangað til í júní. Ásýnd Reyðarfjarðar hefur tekið miklum umbreytingum að undanförnu. Tökur fara m.a. fram í N1 verslun Reyðarfirði, sem hefur verið breytt í „Snow & Ice“ verslun er virðist selja allt það helsta sem þarf til að komast af á norðurhjara veraldar.

Framleiðslukostnaður þáttanna er alls talinn tæpur milljarður króna. Við tökurnar vinna um 120 manns, þar af 70 Íslendingar og 30 leikarar. Þá koma fram um 200 aukaleikarar, flestir af Austurlandi. Fjallað var um málið í Landanum á RÚV og má þar sjá viðtal við Guðmund Þorsteinsson verslunarstjóra N1 Reyðarfirði og allar þær breytingar sem orðið hafa á versluninni og bænum við tökur á þáttunum.

Hér má sjá viðtalið í landanum.