N1 opnar hraðhleðslustöð fyrir Tesla í Fossvogi
N1 og Tesla hafa undirritað samstarfssamning um uppsetningu á Tesla hraðhleðslustöð á þjónustustöð N1 í Fossvogi. Stöðin, sem verður kærkomin fyrir hina fjölmörgu eigendur Tesla bifreiða, opnar á næstu dögum.
Tesla undirritaði samskonar samning við N1 um að opna hraðhleðslustöðvar á á völdum N1 stöðvum umhverfis Ísland, sem gerir Tesla eigendum kleift að hlaða sína bíla þegar ekið er um þjóðveg 1. Í framhaldi af því leitaði Tesla til N1 um að opna hraðhleðslustöð miðsvæðis í Reykjavík og varð Fossvogurinn fyrir valinu.
„Þetta er frábær viðbót við þjónustuúrvalið í Fossvogi og Tesla eigendur geta nú hlaðið bifreiðar sínar miðsvæðis í borginni með auðveldum hætti. Við erum afar ánægð með samstarfið við Tesla og erum þegar farin að huga að fleiri staðsetningum,“ segir Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1.
Eins og áður sagði er jafnframt unnið að uppsetningu hraðhleðslustöðvar fyrir Tesla bifreiðar við hringveginn og verður stöð í Staðarskála þar fyrst í röðinni. Beðið er samþykkis þar til bærra skipulagsyfirvalda og að því fengnu verður hafist handa við verklegar framkvæmdir.