N1 og ON opna nýja hlöðu á Egilsstöðum

28. desember 2017

N1 og ON opna nýja hlöðu á Egilsstöðum

Í dag þann 28 desember opnuðu N1 og Orka náttúrunnar nýja hraðhleðslustöð eða hlöðu fyrir rafbílaeigendur á N1 Egilsstöðum. Hlaðan á Egilsstöðum er við þjónustustöð N1 og þjónar flestum gerðum rafbíla auk hefðbundinnar hleðslu.

 

Austurland kjörlendi rafbílaeigenda

Á Egilsstöðum hlóð Stefán Sigurðsson rafbílaeigandi fyrstur manna bílinn sinn að viðstöddum þeim Bjarna Má Júlíussyni framkvæmdastjóri ON og Sigrúnu Hólm Þórleifsdóttur stöðvarstjóra N1 á Egilsstöðum. „Austurland er kjörið fyrir rafbíla,“ segir Bjarni Már. „Vegalengdir milli staða eru þannig að þessi hlaða okkar á Egilsstöðum, sem er mjög miðsvæðis, getur þjónað hverjum þeim sem er að skreppa á milli byggðanna í fjórðungnum. Nýju Norðfjarðargöngin skipta líka miklu máli,“ bætir Bjarni Már við.

 

Góðir samstarfsaðilar lykilatriði

Við uppbyggingu þessara innviða hefur ON leitað til fjölda samstarfsaðila til að finna hlöðunum stað. N1 hefur reynst ON mikilvægasti samstarfsaðilinn. Þjónustustöðvar fyrirtækisins eru víða um land og vel í sveit settar til að þjóna vegfarendum. Þá hefur ON notið fjárstyrks úr Orkusjóði til uppbyggingarinnar en markmiðið er að opna landið fyrir rafbílaeigendur og varða hringveginn hlöðum.

 

Á meðfylgjandi mynd má sjá Sigrúnu Hólm Þórleifsdóttur, stöðvarstjóra N1 Egilsstöðum og Bjarna Má Júlíusson, framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar.

 

Myndband ný hraðhleðslustöð á Egilsstöðum má sjá hér