N1 mótið 2025 – þrítugasta og níunda mótið að baki

08. júlí 2025

N1 mótið 2025 – þrítugasta og níunda mótið að baki

N1 mótið, eitt fjölmennasta barna- og ungmennamót landsins, fór fram í 39. sinn á Akureyri dagana 2.-5. júlí. Yfir 2.000 börn tóku þátt og mótið stendur eftir sem hátíð leikgleði, samveru og samfélagslegrar þátttöku.

Dagana 2.-5. júlí fór fram þrítugasta og níunda N1 mótið á Akureyri sem er orðið eitt fjölmennasta knattspyrnumót landsins fyrir börn í 5. flokki. Á fjórum dögum spiluðu yfir tvö þúsund börn ríflega 900 leiki og sköpuðu ógleymanlegar minningar í skjóli norðlenskrar sumarsólar og rigningar.

Mótið hefur verið haldið árlega síðan 1986 í samstarfi Knattspyrnufélags Akureyrar (KA) og N1 sem er aðalstyrktaraðili mótsins. Þótt mörg ár séu liðin frá fyrsta mótinu er grunnstefið enn það sama að skapa vettvang þar sem börn og fjölskyldur koma saman í gegnum íþróttir, leikgleði og virðingu. Á þessu ári verður einnig haldið sérstakt N1 Stúlkna­mót KA sem markar skref í átt að jöfnuði og aukinni þátttöku stúlkna í íþróttum.

„Við erum stolt af því að styðja við svona mót“ segir Magnús Hafliðason, framkvæmdastjóri N1. „Þetta snýst ekki bara um fótbolta heldur um uppeldi, heilbrigt samfélag og sameiginlega reynslu sem fylgir börnunum lengi.“

Samfélagslegt hlutverk í forgrunni

Mótið hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár og laðar nú til sín lið víðsvegar að af landinu. Samhliða leikjum fer fram fjölbreytt dagskrá fyrir börn og fjölskyldur, með afþreyingu, menningu og útivist í aðalhlutverki.

Akureyri tekur vel á móti þessum stóra hópi á hverju ári og hefur mótið sterk áhrif á bæjarlífið. Gisting, veitingastaðir og afþreying á svæðinu njóta góðs af.

„Þetta er mót sem skiptir máli. Ekki bara fyrir samfélagið okkar hér fyrir norðan heldur allra helst krakkana. Við sjáum hvernig það hefur mótandi áhrif á börn og líka á okkur fullorðna“ segir Sævar Pétursson framkvæmdastjóri KA.

Tímamót fram undan - en næsta ár marka 40 ára afmæli N1 mótsins

Árið 2026 verður sögulegt í mótssögunni en þá verða liðin 40 ár frá því fyrsta mótið var haldið, með stuðningi Esso, forvera N1. Frá þeim tíma hefur samstarf KA og N1 skapað traustan grunn undir mót sem nú nær til barna og fjölskyldna um allt land.

Undirbúningur fyrir næsta mót hefst á næstu vikum. Fyrir liggur að fertugasta N1 mótið verði haldið með sérstakri viðhöfn og stefnan sett á að gera það glæsilegasta til þessa. Uppbygging á svæði KA og aðstaða verður þar lykilatriði auk þess sem vonir eru bundnar við að bæjaryfirvöld og samfélagið allt stilli saman strengi til að gera mótið enn sýnilegra.

Nánari upplýsingar og myndir má finna á n1.ka.is