N1 mótið 2023

05. júlí 2023

Frábær þáttaka á N1 mótinu í ár

 

Einn umfangsmesti íþróttaviðburður landsins, N1 mótið í knattspyrnu, hófst á Akureyri í dag, miðvikudaginn 5. júlí og stendur mótið til laugardagsins 8. júlí. N1 er styrktaraðili mótsins og KA sér um framkvæmd þess. Alls taka um 202 lið þátt í ár og eru um 2.000 þátttakendur skráðir til leiks. Því er um að ræða eitt stærsta N1 mótið til þessa sem er það 37. í röðinni.

 

N1 mótið er oft fyrsta skrefið í ferli ungra og efnilegra leikmanna eins og sagan hefur sýnt og er mikilvægi mótsins því óumdeilt.  Einnig skapast gjarnan minningar um góða skemmtun og ævilöng vinabönd verða til.

 

Samstarf N1 og KSÍ spilar stórt hlutverk þegar kemur að grasrótarstarfi í knattspyrnu en N1 hefur um árabil verið einn helsti styrktaraðili við grasrótarstarf í knattspyrnu sem er mikilvægur grunnur fyrir framgang beggja kynja í íþróttinni.  KSÍ og N1 vinna áframhaldandi samstarf sem m.a. hlúir að starfsemi Hæfileikamótunar N1 og KSÍ. Markmið verkefnisins er einna helst að fylgjast með yngri leikmönnum af báðum kynjum og undirbúa fyrir hefðbundnar landsliðsæfingar með bæði fræðslu og æfingum, auk þess að koma til móts við minni félög á landsbyggðinni til að gefa sem flestum leikmönnum tækifæri til að sýna sig og sanna.