N1 leysir sameinaða krafta úr læðingi

13. apríl 2007

N1 leysir sameinaða krafta úr læðingi

Bílanaust, Olíufélagið ESSO og dóttur félög hafa sameinast í nýtt félag sem heitir N1.Markmiðið með sameiningunni er að mynda fjölþætt verslunar- og þjónustufyrirtæki, efla þjónustuna á öllum sviðum og leysa aukinn slagkraft úr læðingi. Viðskiptavinir N1 verða þegar í stað varir við aukinn ávinning. Safnkortspunktar safnast tvöfalt hraðar af eldsneytiskaupum og punktar fást fyrir öll viðskipti. N1 er tíunda stærsta fyrirtæki landsins með um 700 starfsmenn um land allt og um 35 milljarða króna veltu á ári. N1 er í eigu eignarhaldsfélagsins BNT.

MEIRA Í LEIÐINNI
Kjörorð N1 er „Meira í leiðinni“. Það hefur tvíþætta merkingu. Í fyrsta lagi þýðir það að N1, sem hefur um 115 útsölustaði um land allt, er alltaf í grenndinni og aldrei úr leið að sækja þangað þjónustu. Í öðru lagi hefur sameiningin í för með sér að viðskiptavinum býðst miklu meira og fjölbreyttara vöruúrval en hægt er að fá annars staðar – þannig fær fólk meira í leiðinni! Hvað atvinnulífið varðar þá búum við að því að Olíufélagið og Bílanaust hafa staðið sig frábærlega vel í þjónustu við alls konar fyrirtæki um land allt á undanförnum árum. Eftir sameininguna verður þjónustan hins vegar enn öflugri og fjölbreyttari. „Það verða til dæmis rúmlega 160 þúsund mismunandi vörutegundir til sölu hjá þessu nýja félagi. Ekkert annað fyrirtæki getur státað af viðlíka úrvali fyrir bíleigendur, að ógleymdri þjónustu eins og bílaþvotti, smurþjónustu og hjólbarðaskiptum.


N1 ER EKKI OLÍUFÉLAG
N1 er ekki hefðbundið olíufélag og í því felast tíðindi. „Þetta er ákveðið skilgreiningaratriði, eldsneyti er bara ein af ótal vörum sem N1 býður upp á. Okkar tækifæri felast í því að bæta við þjónustuna, því fólk vill góða þjónustu á hagstæðu verði á aðgengilegum stað. Það ætlar N1 að standa fyrir. Stóra breytingin felst í því að nú getur fólk fengið næstum alla þjónustu fyrir bílinn undir einum hatti. Þetta skapar ekki aðeins hagræði fyrir viðskiptavinina, því ávinningurinn verður einnig fjárhagslegur.
N1 verður með eitt öflugasta vildarkerfi landsins, því menn geta safnað punktum inn á Safnkortið af öllum sínum viðskiptum við N1, hvort sem þeir kaupa dekk, bensín, varahluti eða pylsur. Þá munu viðskiptavinir einnig taka eftir því að við tvöföldum punkta- söfnun fyrir kaup á eldsneyti. Einnig verður þjónustan aukin verulega á mörgum stöðum. Hjólbarðaverkstæðin munu til dæmis bjóða upp á rafgeymaþjónustu, bremsuklossaskipti auk hjólbarðaþjónustu, þetta er allt liður í því að vera í takt við nýja tíma og nýjar þarfir fólks og fyrirtækja.“


SÆKJA FRAM UNDIR NÝJU MERKI
Aðalverðmætin felast í þessu frábæra starfsfólki sem nú er að leggja saman upp í langferð undir merkinu N1. Þessi hópur er samhentur og staðráðinn í að leggja sig fram og skapa ímynd fyrir N1 sem byggir á nýrri upplifun viðskiptavina. Allir starfsmenn starfa eftir sömu grundvallargildunum sem eru áreiðanleiki, áræði, ávinningur og ánægja − Ásarnir fjórir!

Nafnið sjálft, N1, er einfalt og þægilegt og býður upp á ýmsa möguleika, til dæmis skemmtilega orðaleiki. Það varð þó aðallega fyrir valinu vegna þess að við ætlum að leggja alla áherslu á góða þjónustu – viðskiptavinurinn veit að hjá okkur er hann alltaf númer eitt!“