N1 í samstarf um sýningar á leikjum 1. deildar
N1, KSÍ og 365 hafa gert með sér samning varðandi beinar útsendingar frá leikjum í 1. deild karla í fótbolta í sumar.
„Það er gleðiefni að fá N1 sem samstarfsaðila í þetta verkefni og saman trúi ég að við munum lyfta umfjöllun um fyrstu deildina upp á hærra plan en áður hefur þekkst," segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365.
Fyrsti leikurinn í beinni útsendingu verður í kvöld þegar Haukar og Grindavík mætast klukkan 19.15 en einnig verður leikur Þróttar og BÍ/Bolungarvíkur á morgun laugardag klukkan 14. Báðir leikirnir verða sýndir á SportTV og Vísi.
„Við hlökkum mikið til þessa samstarfs og vonumst til að það verði til þess að 1. deildin fái þann sýnileika og þá umfjöllun sem við teljum að hún eigi skilið," segir Þyrí Dröfn Konráðsdóttir sem er markaðsstjóri N1.
„KSÍ fagnar samstarfinu við N1 og 365 sem er vonandi skref í þá átt að efla markaðsstarfið í kringum 1. deild karla," segir Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.