N1 fjölgar afgreiðslustöðum AdBlue

28. maí 2018

N1 fjölgar afgreiðslustöðum AdBlue

Á undanförnum vikum hefur N1 fjölgað afgreiðslustöðum AdBlue um land allt og eru fleiri staðsetningar væntanlegar. 
AdBlue er nú fáanlegt á fjölmörgum afgreiðslustöðum N1, til dæmis Ártúnhöfða, Bíldshöfða, Norðlingaholti, Háholti í Mosfellsbæ, Breiðabliki Snæfellsnesi, Ísafirði, Staðarskála, Leirunni á Akureyri, Egilsstöðum og Laugarvatni.
Á mörgum þessara staðsetninga er aðgengi mjög gott fyrir stóra bíla en þá sérstaklega á Norðlingaholti. 

AdBlue er efni sem er hannað til að minnka umhverfisskaðann sem hlýst af útblæstri bifreiða og mun aukin notkun því draga úr skaðlegum útblæstri. 
Efnið er vottað samkvæmt nýjustu Evrópustöðlum. 

Jóhann Ö. Ingimundarson, viðskiptastjóri N1, svarar hér fyrir neðan nokkrum spurningum um AdBlue. 

Hvað gerir AdBlue?

„AdBlue er hannað til að draga úr losun á köfnunarefnisoxíði og með því hjálpa til við að vernda umhverfið. AdBlue er litlaus lausn sem lítur út eins og vatn. Það samanstendur af 67,5% eimuðu vatni og 32,5% hágæða þvagefni. Þegar ökutæki notar AdBlue er köfnunarefnisoxíði sem dísilvélin framleiðir breytt í köfnunarefni og gufu. Þetta dregur verulega úr losun skaðlegs köfnunarefnisoxíðs, sem er stór orsakavaldur mengunar í andrúmslofti.  AdBlue er úðað inn í pústkerfi vélarinnar þar sem það veldur efnahvörfum. Þessi aðferð og AdBlue uppfyllir kröfur evrópustaðlanna Euro 4 og Euro 5.“

Hvað þarf að nota mikið af AdBlue?

„Sem þumalputtareglu má miða við að flutningabíll noti 1,5 ltr. af AdBlue á hverja 100 ekna kílómetra. Þetta fer þó eftir gerð bíls, aksturslagi og yfirborði vegar sem allt hefur áhrif á notkunina. Að jafnaði má búast við að bíllinn þurfi milli 4% og 6% Adblue miðað við notkun á díselolíu. Með öðrum orðum: þá má reikna með u.þ.b. 5 lítrum af AdBlue á móti hverjum 100 lítrum af dísilolíu. Af þessu leiðir að það þarf mun sjaldnar að taka Adblue heldur en eldsneyti.“

Hvernig geymir maður AdBlue ?

„AdBlue ætti að geymast við hitastig á milli 0 og 30°C, og ætti ekki að standa þar sem sól skín á það. Umbúðir eiga að vera vel lokaðar þegar ekki er verið að nota þær. AdBlue frýs við -11°C, þannig að mikilvægt er að geyma það við hærri hita en það. Ef AdBlue hefur frosið, þá má nota það eftir að það hefur þiðnað. Efnið breytist ekkert við að frjósa og þiðna aftur. Geymslustaður þarf að vera hreinn og laus við ryk til að koma í veg fyrir mengun efnisins. Sérstaklega þegar verið er að fylla á AdBlue tank ökutækisins.“

Hvernig skal meðhöndla AdBlue ?

„Það má alls ekki nota ílát undan olíu eða olíuvörum undir AdBlue. Best er að hafa það í upprunalegum umbúðum eða þá ílátum sem einungis eru notuð undir AdBlue. Þetta á einnig við um trektir og slöngur sem gæti þurft að nota. Mjög lítið magn af olíu þarf til að menga AdBlue þannig að skaði og eða gangtruflanir hljótist af. Þegar AdBlue er hellt á þarf ekki að nota neinn hlífðarfatnað. Hins vegar er notkun hanska ráðlögð til að koma í veg fyrir ertingu á viðkvæmri húð. Lesið öryggisblaðið yfir vöruna þegar hún er meðhöndluð í miklu magni. Öryggisblað má nálgast á www.n1.is .“

Allar nánari upplýsingar um AdBlue má finna á www.n1.is.