N1 fær minna af metani frá Sorpu

14. júní 2013

N1 fær minna af metani frá Sorpu

-metanstöðinni við Tinhellu lokað

N1 hefur samið við Sorpu um áframhaldandi kaup á metangasi. Samkomulagið var undirritað í kjölfar útboðs sem Sorpa stóð fyrir. Fram til þessa hefur N1 verið eini kaupandinn að metangasi frá Sorpu. Útboðið fór fram í kjölfar úrskurðar Samkeppniseftirlitsins frá því í desember síðastliðnum.
N1 fær umtalsvert minna af metani til að selja sínum viðskiptavinum og getur þar af leiðandi ekki haldið úti tveimur sölustöðum. Í ljósi þessa hefur verið ákveðið að loka metanstöðinni að Tinhellu í Hafnarfirði þann 20. júní.

Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1;
„Við höfum fjárfest umtalsvert í búnaði og höfum tryggt umhverfisvæna flutningsleið fyrir metangasið frá Sorpu til okkar. Orkuveita Reykjavíkur lagði rör til stöðvarinnar okkar og við höfum dælt gasinu um það rör og greitt OR leigu fyrir.  Þetta verkefni er mikilvægur þáttur í viðleitni okkar til að bjóða umhverfisvænni orkugjafa.  Vegna minna framboðs til okkar frá Sorpu þurfum við þó að loka Tinhellunni sem metanstöð til þess að tryggja eins og hægt er framboð á stöðinni okkar á Bíldshöfða.“
Um 10% sölunnar hjá N1 hefur verið á metanstöðinni við Tinhellu.

Nánari upplýsingar veitir Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1, tölvupóstfang: ebg@n1.is