N1 fær Jafnlaunavottun

19. júní 2015

N1 fær Jafnlaunavottun

Í dag, 19. júní, á hátíðis- og baráttudegi íslenskra kvenna fengum við  Jafnlaunavottun VR. N1 er þar með fyrsta olíufélagið á Íslandi til að hljóta vottunina sem staðfestir það að hjá okkur er starfsfólki, sem vinnur sömu eða jafnverðmæt störf, ekki mismunað í launum. Jafnlaunakerfi fyrirtækisins stenst þannig kröfur jafnlaunastaðals Staðlaráðs Íslands. Jafnlaunavottun VR tekur nú til tæplega 5.100 starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði.

„Við erum mjög stolt af þessari viðurkenningu, það er samfélagslega ábyrgt að engum sé mismunað, hvorki vegna kynferðis né annars. Það er sérstaklega ánægjulegt fyrir N1 að fagna aldarafmæli kosningaréttar kvenna og hljóta Jafnlaunavottun VR á þessum merka degi,” segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1. 

„Það er afar ánægjulegt að afhenda N1 Jafnlaunavottun VR sama dag og við fögnum mikilvægum áfanga í jafnréttisbaráttu kvenna, aldarafmæli kosningaréttar þeirra,“ segir Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR. „N1 er fyrsta olíufélagið sem fær Jafnlaunavottun VR og ég hvet önnur olíufyrirtæki til að leita eftir vottun, sem og öll önnur fyrirtæki, sama í hvaða atvinnugrein þau starfa. Fyrirtæki og stofnanir sem hafa fengið Jafnlaunavottun VR eru nú alls 25 og koma úr mörgum ólíkum áttum. Vottun VR tekur til fimm þúsund starfsmanna þessara fyrirtækja.“

Jafnlaunavottun VR felur í sér ítarlega úttekt á launum starfsfólks, starfaflokkun og öðrum þáttum sem hafa áhrif á kjör. Öll fyrirtæki og stofnanir á íslenskum vinnumarkaði geta sótt um Jafnlaunavottun VR, óháð stéttarfélagsaðild starfsmanna sinna. Sjá ítarlegri umfjöllun um Jafnlaunavottun VR.