N1 dregur úr losun og kolefnisjafnar með samningi við Kolvið
N1 hefur skrifað undir samning við Kolvið fyrir tímabilið 2016 – 2017 og næstu ár en samningurinn felur í sér að allt flug og notkun eigin bíla N1 verður kolefnisjafnað.
N1 skrifaði árið 2015 undir sameiginlega loftslagsyfirlýsingu ríflega 100 íslenskra fyrirtækja um að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Með þeirri yfirlýsingu undirstrikaði N1 áframhaldandi vinnu fyrirtækisins við að minnka vistspor sitt með ýmsum leiðum. Í tengslum við yfirlýsinguna hefur N1 sett sér skýr markmið varðandi losun gróðurhúsategunda, minnkun úrgangs og að draga úr óflokkuðum úrgangi um 2% á ári til ársins 2020
Nú hefur N1 skrifað undir samning við Kolvið um kolefnisbindingu sem snýr að losun fyrir árið 2016 og áætlun fyrir árið 2017. Kolefnisbindingin er framkvæmd með gróðursetningu rúmlega 2.000 trjáa, eða tæpan hektara af skógi árlega, á svæðum sem Kolviður hefur umsjón með.
Kolviður er stofnaður af Skógræktarfélagi Íslands og Landvernd og miðar að því að binda kolefni í skógarvistkerfum í þeim tilgangi að draga úr styrk koldíoxíðs (CO2) í andrúmsloftinu, að binda jarðveg og draga úr jarðvegseyðingu. Sjóðurinn hvetur til að dregið sé úr losun gróðurhúsalofttegunda af fremsta megni og til kolefnisbindingar í jarðvegi og gróðri fyrir þá losun sem óhjákvæmileg er. Á síðustu fimmtíu árum hefur styrkur gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu, einkum koldíoxíðs (CO2), aukist gríðarlega. Að óbreyttu mun sú aukning halda áfram af vaxandi þunga sem gæti haft geigvænlegar afleiðingar í för með sér fyrir umhverfi og lífsskilyrði jarðarbúa. Þennan vöxt í styrk koldíoxíðs má fyrst og fremst rekja til brennslu jarðefnaeldsneytis auk eyðingar skóga og hnignunar gróðurvistkerfa.
Á mynd má sjá Eggert Þór Kristófersson, forstjóra N1 og Reyni Kristinsson, stjórnarformann Kolviðs skrifa undir samning vegna málsins.