N1 bakhjarl KSÍ til næstu þriggja ára

27. febrúar 2018

N1 bakhjarl KSÍ til næstu þriggja ára

N1 og KSÍ hafa endurnýjað samstarfssamning sinn sem fyrst var undirritaður árið 2014 og gildir endurnýjunin til þriggja ára. Um er að ræða stærsta samstarfssamning N1 en hann felur í sér að N1 verði áfram einn helsti bakhjarl KSÍ. Samningurinn innifelur m.a. að N1 sjái KSÍ fyrir eldsneyti á bifreiðar sambandsins, en N1 hefur yfir að ráða öflugasta dreifineti landsins hvað eldsneyti, tengdar vörur og hressingu varðar og hefur því snertifleti við flest bæjar- og sveitarfélög á landinu þar sem knattspyrna er stunduð.

 

Við erum mjög ánægð með að endurnýja samstarfsamning okkar við N1. Þetta hefur verið mjög farsælt og kraftmikið samstarf og N1 hefur tekið virkan þátt með okkur í uppbyggingarstarfi íslenskrar knattspyrnu, meðal annars með því að fylkja sér á bak við Hæfileikamótun KSÍ. Við sjáum fram á spennandi tíma á komandi árum og ætlum okkur að efla samstarfið enn frekar til heilla fyrir íslenskan fótbolta,” segir Guðni Bergsson, formaður KSÍ.

 

Samningur okkar við KSÍ snertir grunngildi N1 þar sem áhersla okkar í þessu samstarfi hefur ætíð verið á grasrótina og er Hæfileikamótun þar í aðalhlutverki. Að geta aukið áhuga yngri iðkenda af báðum kynjum og hjálpa til við uppbyggingu knattspyrnu um land allt er okkur mikið kappsmál og samstarfið við KSÍ er lykilatriði þar. Við viljum byggja til framtíðar og aðstoða við að finna landsliðsmenn - landsliðskonur komandi kynslóða,“ segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1.

 

Hæfileikamótun felur einmitt í sér að knattspyrnulið um land allt fá heimsóknir frá þjálfurum KSÍ og meta þeir getu leikmanna á aldrinum 13 – 14 ára og fylgjast vel með efnilegum leikmönnum hvar sem þá er að finna á landinu.

 

Það voru þeir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1 og Guðni Bergsson, formaður KSÍ, sem undirrituðu samstarfssamninginn meðan á úrtaksæfingu fyrir U17 stóð yfir í Kórnum í Kópavogi, en meðfylgjandi mynd var tekin við það tækifæri.

 

Sjá vídeó frá undirskrift hér