N1 aðalbakhjarl Reykjavíkurmótsins í skák næstu tvö árin
N1 og Skáksamband Íslands gengu í morgun frá samkomulagi, sem felur í sér að N1 verður aðalbakhjarl Reykjavíkurmótsins í skák næstu tvö árin. N1 Reykjavíkurmótið verður firnavel skipað og hið fjölmennasta frá upphafi, eins og fram kom í kynningu SÍ og N1 í Hörpu í morgun. Við sama tækifæri voru íslensku landsliðsbörnin í skák heiðruð, en þau stóðu sig frábærlega á Norðurlandamótinu í skólaskák um síðustu helgi.
N1 Reykjavíkurskákmótið 2013 fer fram í Hörpu, 19. til 27. febrúar.
Gunnar Björnsson forseti Skáksambandsins og Eggert Benedikt Guðmundsson forstjóri N1 skrifuðu undir samninginn í morgun, og sagði forseti SÍ að samningurinn markaði tímamót við uppbyggingu hins gamalgróna og vinsæla Reykjavíkurmótsins. Á næsta ári verður hálf öld liðin frá fyrsta mótinu, sem fram fór 1964.
Eggert Benedikt sagði mjög ánægjulegt að starfa með SÍ að uppbyggingu N1 Reykjavíkurmótsins, og sagði sérstakt fagnaðarefni að íslensk börn og ungmenni fengju tækifæri til að tefla á alþjóðlegu stórmóti með sumum bestu skákmönnum heims.
„Sem riddarar götunnar lítum við á það sem eitt af okkar hlutverkum að efla skáklist á Íslandi og erum full tilhlökkunar til samstarfsins við SÍ, og erum ekki síður stolt að koma að einu vinsælasta skákmóti heims.“
Mikill fjöldi stigahárra stórmeistara er skráður til leiks á N1 Reykjavíkurskákmótinu, en mótið er öllum opið og er búist við allt að 250 keppendum, sem er metþátttaka í næstum hálfrar aldar sögu mótsins.
Kínverskir skáksnillingar munu setja mikinn svip á keppnina. Í þeim hópi eru ofurmeistararnir Ding Liren, sem er tvítugur, og Bu Xiangzhi sem varð stórmeistari 13 ára gamall, og hin 17 ára gamla Guo Qi sem varð heimsmeistari stúlkna á síðasta ári. Ekki verður síður forvitnilegt að fylgjast með hinum 13 ára gamla Wei Yi, sem er stigahæstur allra í heiminum, 14 ára og yngri.
Fleiri ungir snillingar verða áberandi í Hörpu, því þrír stigahæstu skákmenn heims 20 ára og yngri verða með á N1 Reykjavíkurskákmótinu. Þetta eru Anish Giri frá Hollandi, 18 ára, Yu Yangyi frá Kína, 19 ára, og Wesley So frá Filippseyjum, 19 ára. Allir urðu þeir stórmeistarar 14 til 15 ára og munu berjast um æðstu metorð í skákheiminum á næstu árum.
Skákmeistarar frá um 40 löndum tefla á N1 Reykjavíkurskákmótinu. Í þeim hópi eru gamlir vinir Íslendinga á borð við Ivan Sokolov, sem í tvígang hefur sigrað á Reykjavíkurmótinu áður, og ensku goðsögnina Nigel Short, sem teflt hefur um heimsmeistaratitilinn.
Meðal íslenskra keppenda verða Hannes Hlífar Stefánsson, sem fimm sinnum hefur sigrað á Reykjavíkurmótinu, Hjörvar Steinn Grétarsson efnilegasti skákmaður Íslands, og stórmeistararnir Stefán Kristjánsson, Henrik Danielsen og Þröstur Þórhallsson Íslandsmeistari. Íslensku landsliðskonurnar okkar taka líka allar þátt í mótinu. Stigahæst þeirra er Lenka Ptacnikova, ríkjandi Íslandsmeistari.
Samhliða N1 Reykjavíkurskákmótinu verður efnt til fjölda sérviðburða, og almenningi gefst kostur á að komast í tæri við meistarana. Meðal annars er efnt til skólahátíða, sundlaugartafls, spurningakeppni um skák, ,,landsleiks" í fótbolta, hraðskákmóts og málþings um gildi skákarinnar.
Áhorfendur verða hjartanlega velkomnir á N1 Reykjavíkurskákmótið í Hörpu og er aðgangur ókeypis. Hægt verður að fylgjast með viðureignum meistaranna, auk þess sem boðið er upp á skákskýringar í hliðarsal.
Anish Giri, 18 ára, frá Hollandi, stigahæsti skákmaður heims undir 20 ára.
Guo Qi frá Kína, heimsmeistara stúlkna 18 ára og yngri.
Wesley So, 19 ára, frá Filippseyjum. Einn besti skákmaður Asíu.