
Mörg þúsund manns norður vegna N1 mótsins í knattspyrnu
Eitt stærsta knattspyrnumót landsins, N1 mótið í knattspyrnu, fer fram á Akureyri næstu helgi eða dagana 2. til 5. júlí. Mótið er haldið í 28. skiptið og búist er við 1400 drengjum og 150 farastjórum úr 5. flokki karla í knattspyrnu.
N1 mótið í knattspyrnu þykir eitt besta og sterkasta mót yngri flokka drengja en flestar stjörnur íslenskrar knattspyrnu hafa tekið þátt í mótinu á yngri árum.
Búist er við fjölda manns norður um helgina en auk keppenda og farastjóra fjölmenna fjölskyldur og vinir þátttakenda til að fylgjast með þeim spila á mótinu. Talið er að heildarfjöldi gesta á Akureyri í tengslum við mótið verði á bilinu sex til sjö þúsund manns.
Liðin á N1 mótinu koma alls staðar að af landinu og á fjórða tug félaga senda um 150 til 160 lið sem munu leika á tólf völlum á KA svæðinu. Mótinu lýkur með verðlaunaafhendingu á laugardaginn, 5. júlí.
KA býður að venju gestum mótsins í sund og mega þátttakendur, þjálfarar og fararstjórar fara einu sinni á dag í Sundlaug Akureyrar. Svo kann að fara að hleypa þurfi inn í laugina í hollum ef mikil örtröð verður. þá er öllum þátttakendum boðið í Borgarbíó á myndina Að temja drekann sinn 2
N1 er styrktaraðili mótsins en framkvæmdin er að mestu í höndum KA.