Michelin veitir bílaþjónustu N1 á Langatanga verðlaun

04. apríl 2019

Bílaþjónustan Langatanga verðlaunuð af Michelin

N1 bílaþjónustuverkstæðið að Langatanga var nýverið sérstaklega verðlaunað af hinu alþjóðlega Michelin hjólabarðafyrirtæki. N1 Langatanga er „Michelin Quality Dealer of the Year“ hjá Michelin á Íslandi fyrir árið 2018 og voru verðlaunin afhent Úlfari Pálssyni, sölustjóra á Langatanga af Rune Stolz, viðskiptastjóra Michelin.

 

„Þetta er gríðarlega mikil viðurkenning þar sem þeir verðlauna okkur sérstaklega fyrir framúrskarandi fagmennsku við sölu og meðhöndlun Michelin dekkjanna. Michelin heldur úti hulduheimsóknum með reglulegu millibili þar sem fagmennskan, meðhöndlun hjólbarðanna og upplifun viðskiptavina er könnuð og það var þeirra niðurstaða að okkur bæri að verðlauna,“ segir Úlfar Pálsson, sölustjóri N1 að Langatanga í Mosfellsbæ.

 

N1 var með eina af hæstu einkunn verkstæða á Norðurlöndunum í úttekt Michelin, en verðlaunin eru veitt til tveggja ára í senn. Þess má geta að öll verkstæði N1 eru með Michelin Quality Dealer vottun.  Meðal þeirra ströngu gæðakrafa sem Michelin setur er hvernig hjólbarðar eru geymdir, meðhöndlaðir, settir á og hvernig gert er við þá, hvernig upplýsingagjöf til viðskiptavina fer fram, hvernig tekið er á móti viðskiptavinum og öryggi þeirra er háttað. Horft er til þjálfunar og endurmenntunar starfsmanna, aðbúnaðs á verkstæðum, tækjabúnaðar og hvernig brugðist er við ábendingum viðskiptavina.