Margrét Guðmundsdóttir stjórnarformaður N1 hlaut viðurkenningu Félags kvenna í atvinnurekstri
Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarformaður N1 og forstjóri Icepharma hlaut viðurkenningu FKA, Félags kvenna í atvinnurekstri, í Ráðhúsi Reykjavíkur síðdegis í gær.
Margrét er viðskiptafræðingur að mennt og stundaði nám við Háskóla Íslands, HÍ og CBS í Kaupmannahöfn þar sem hún lauk mastersnámi í starfsmannastjórnun. Hún hefur víðtæka reynslu af stjórnunarstörfum bæði hérlendis og erlendis; var um árabil einn af stjórnendum hjá Esso og Q8 í Danmörku og hjá Skeljungi og Austurbakka eftir að hún flutti aftur heim.
Margrét segir í viðtali við mbl.is að miklar breytingar hafi orðið hér á landi á síðustu árum og tækifæri kvenna séu mun meiri en áður. „Mér finnst á þessum ferli mínum, sem spannar yfir 30 ár, í atvinnulífinu hafa orðið gríðarlega mikil breyting hér heima á síðustu fjórum til fimm árum. Konur eru að koma miklu sterkari inn og fá miklu fleiri tækifæri. Ég held að þessi löggjöf sem kemur núna í september um konur í stjórn, hún hefur ýtt við mörgum að horfa út fyrir þægindahringinn við að leita að aðilum til að taka þátt í stjórnarstörfum.“
Sjá viðtal við Margréti á mbl.is
N1 er sérlega stolt af þessum verðlaunum og óskar Margréti innilega til hamingju, enda vel að þeim komin.
Hér að neðan má sjá viðtal við Margréti af vef FKA.