Kjötsúpa verði skyndibiti ferðamanna: Íslenskt lambakjöt í öndvegi hjá N1 um allt land

26. janúar 2018

Kjötsúpa verði skyndibiti ferðamanna: Íslenskt lambakjöt í öndvegi hjá N1 um allt land

Kjötsúpa verði skyndibiti ferðamanna

Íslenskt lambakjöt í öndvegi hjá N1 um allt land

N1 og markaðsstofan Icelandic Lamb undirrituðu í dag 26. janúar 2018 samstarfssamning sem innsiglar víðtækt samstarf, vöruþróun og sameiginlegar markaðsaðgerðir til að auka sölu lambakjöts á Nestisstöðvum N1 um allt land. Undirbúningur hefur staðið frá því haustið 2017. Samningurinn var undirritaður í þjónustumiðstöð N1 við Brúartröð í Borgarnesi.

Það voru þau Guðný Rósa Þorvarðardóttir framkvæmdastjóri hjá N1 og Svavar Halldórsson framkvæmdastjóri Icelandic Lamb sem undirrituðu samninginn á Nestisstöð N1 í Borgarnesi.

Fjölbreytt flóra skyndirétta úr lambakjöti

Í upphafi er sérstök áhersla á að kynna íslenska kjötsúpu sem hollan og aðgengilegan íslenskan skyndibita fyrir ferðamenn. Bæði verður hægt að borða hana á staðnum eða taka með.  Á næstu vikum og mánuðum bætast við fleiri skyndiréttir úr lambakjöti, m.a. steikarsamloka, lambasnitsel, lamb bearnaise og lamba-hamborgari. Þetta er afrakstur vöruþróunar undanfarinna mánaða þar sem lambakjötið er í aðalhlutverki. Með skírskotun til íslenskra hefða verður einnig boðið upp á hægeldaða lambaskanka með kartöflumús, sósu, rauðkáli og grænum baunum á sunnudögum.

Lágmarks umhverfisfótspor og afstaða með bændum

Fjölgun erlendra ferðamanna síðustu ár hefur sett svip sinn á íslenskan skyndibitamarkað. Með samstarfinu er ætlunin að bjóða ferðamönnunum að kynnast íslenska lambakjötinu eins og við Íslendingar þekkjum það best.  Um leið á að festa kjötsúpuna í sessi sem ekta íslenskan skyndibita og ómissandi hluta af því að upplifa íslenska matargerð og hefðir. Með því að setja íslenskt lambakjöt í öndvegi sem skyndibita við þjóðveginn vill N1 lágmarka umhverfisfótspor, uppfylla óskir viðskiptavina um hágæða skyndibita, kynna íslenska matarmenningu og taka afstöðu með íslenskum bændum.