KA og N1 endurnýja samstarfið

06. júlí 2023

KA og N1 endurnýja samstarfið

 

Knattspyrnudeild KA og N1 hafa undirritað samning um áframhaldandi samstarf. Samningurinn felur í sér stuðning N1 við framkvæmd N1 mótsins til næstu fjögurra ára auk þess sem félagið verður aðalstyrktaraðili Knattspyrnudeildar KA.

 

N1 mótið í knattspyrnu hófst á Akureyri miðvikudaginn 5. júlí og stendur mótið til laugardagsins 8. júlí. Um er að ræða einn umfangsmesta íþróttaviðburð ársins en N1 er aðalstyrktaraðili mótsins og KA sér um framkvæmd þess. Alls taka um 202 lið þátt í ár og eru um 2.000 þátttakendur skráðir til leiks. Því er um að ræða eitt stærsta N1 mótið til þessa sem er það 37. í röðinni.

 

Sævar Pétursson framkvæmdastjóri KA þakklátur fyrir samstarfið við N1.

„Einn af hápunktum sumarsins fyrir okkur KA-menn er þegar N1 mótið byrjar að rúlla.  Það er mikið líf og fjör að sjá þessa stráka mæta hérna norður og búa til skemmtilegar minningar sem vonandi lifa vel og lengi hjá þeim.  Við erum þakklátir fyrir samstarf okkar við N1 og gaman að segja frá því að með undirritun þessa nýja samnings þá teygir þetta samstarf sig yfir 40 árin við sama styrktaraðila sem hlýtur að vera einsdæmi í heiminum“

 

N1 mótið er oft fyrsta skrefið í ferli ungra og efnilegra leikmanna eins og sagan hefur sýnt og er mikilvægi mótsins því óumdeilt að sögn Einars Eyland, verslunarstjóra N1 á Akureyri. „Við hjá N1 erum ákaflega stolt af N1 mótinu og því góða samstarfi sem við höfum átt með KA í gegnum tíðina enda undirbúningur og umgjörð mótsins til fyrirmyndar hjá félaginu. Við munum því halda áfram að styðja við grasrótarstarf drengja og stúlkna og hlökkum til að halda því áfram!“

 

Á myndinni má sjá Einar Eyland verslunarstjóra N1 á Akureyri og Hjörvar Marons formann knattspyrnudeildar KA