Jólastyrkur N1 2018

07. desember 2018

Jólastyrkur N1 2018

Ákvörðun um að N1 myndi ekki senda jólagjafir til fyrirtækja í ár var tekin fyrir nokkru og var þess í stað ákveðið að auka styrki til góðgerðarmála. Starfsmenn N1 um land allt sendu inn tillögur að málefni fyrir Jólastyrk N1 og varð niðurstaðan, eftir tilnefningar ríflega 200 starfsmanna, sú að styrkja þrjú málefni um þrjár milljónir króna.

 

Bjarki Már Sigvaldason og fjölskylda hans hafa vakið aðdáun fyrir æðruleysi í baráttu hans gegn illvígu krabbameini og mætti hann ásamt eiginkonu sinni, Ástrósu Rut Sigurðardóttur, og nokkurra mánaða dóttur þeirra, Emmu Rut, til að taka við styrknum.

Þessi styrkur hjálpar okkur verulega við að njóta lífsins einmitt núna. Margir lifa löngu lífi en gera lítið en við ætlum okkur og höfum gert mikið með okkar stutta tíma. Við ákváðum strax í byrjun að eyða ekki of mikilli orku í neikvæðni og við erum þakklát fyrir það sem við eigum og fáum. Jólastyrkur N1 gefur mæðgunum smá öryggisnet fyrir framtíðina,“ segja Bjarki Már og Ástrós Rut.

 

Umhyggja - félag langveikra barna, er félag sem vinnur að bættum hag langveikra barna og fjölskyldna þeirra. Í félaginu, starfa foreldrar langveikra barna og fagfólk innan heilbrigðiskerfisins.

Við erum afskaplega þakklát fyrir þennan styrk og með honum gefst okkur kostur á enn frekari vinnu við að bæta hag langveikra barna og fjölskyldna þeirra. Innan Umhyggju starfa nú 18 félög og samtök og fer styrkurinn til starfsins þar,“ sagði Ragna K. Marinósdóttir, framkvæmdastjóri Umhyggju.

 

Frú Ragnheiður - skaðaminnkun, er verkefni sem hefur það markmið að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu eins og heimilislausra einstaklinga og þeirra sem nota vímuefni um æð.

Með Jólastyrk N1 gefst okkur færi á að halda áfram að veita heilbrigðisþjónustu til þessa viðkvæma hóps sem á oft erfitt með að sækja sér þjónustu í hinu almenna heilbrigðiskerfi vegna stöðu sinnar. Styrkurinn verður sérstaklega nýttur til að greiða fyrir sýklalyfjameðferðir, sáraumbúðir, hreinsivörur og svo lyfin sjálf,“ segir Marín Þórsdóttir, forstöðumaður Rauða Krossins í Reykjavík.