Icelandair kaupir allt sitt eldsneyti á Íslandi af N1

07. desember 2012

Icelandair kaupir allt sitt eldsneyti á Íslandi af N1

Tilkynning til fjölmiðla
7. desember 2012
 
Icelandair mun áfram kaupa eldsneyti fyrir flugflota sinn af N1 næstu árin. Forsvarsmenn félaganna tveggja undirrituðu samning þessa efnis í dag að lokinni verðkönnun og gildir hann til þriggja ára. Nýr samningur tekur gildi í byrjun næsta árs en Icelandair hefur keypt allt sitt eldsneyti á Íslandi af N1 frá árinu 2006.
 
Forystumenn beggja félaga segja samninginn tryggja framhald ánægjulegs samstarfs og segja hann mikilvæga stoð í rekstrinum næstu árin.
 
„Við leitum stöðugt leiða til að auka hagkvæmni í rekstrinum. Reynsla okkar af viðskiptum við N1 undanfarin ár hefur uppfyllt okkar kröfur um trausta og góða þjónustu.  Við erum því mjög ánægð með að halda þeim viðskiptum áfram næstu árin,” segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.

Eggert Benedikt Guðmundsson forstjóri N1, segir ánægjulegt að nýr samningur hafi náðst. „Þetta er mjög góð lending fyrir bæði fyrirtækin. Við erum stolt af því að styðja við þá grunnstoð íslenskrar ferðaþjónustu, sem er Icelandair.  Það er okkur líka mikill heiður að svo kröfuharður viðskiptavinur sem Icelandair treysti okkur áfram til að sjá þeim fyrir eldsneyti hér á landi.” 

Mynd frá undirskrift samnings:
Efri röð frá vinstri: Guðmundur Pálsson, Smári Þ. Sigurðsson, Hlynur Elísson, Birgitta Gunnarsdóttir
Neðri röð frá vinstri: Kristján Arason, Eggert Benedikt Guðmundsson, Birkir Hólm Guðnason, Björgólfur Jóhansson

Kristján Arason, Eggert Benedikt Guðmundsson, Birkir Hólm Guðnason, Björgólfur Jóhansson